Á tíunda áratug síðustu aldar flúðu margir hræðilegt stríð í Júgóslavíu og komu sumir þeirra alla leið til Íslands. Á þessum tíma starfaði blaðamaður sem ljósmyndari blaðsins og var sendur að taka á móti hópnum á Blönduósi í júní 1998 og festa atburðinn á filmu. Þar var vel tekið á móti þessum 23 manna hópi sem taldi konur, karla og börn. Verkefnið var bæði athyglisvert og gleðilegt, en það var eitt júníkvöld að við Sigríður B. Tómasdóttir blaðamaður hittum hópinn í félagsheimili bæjarins en fylgdum svo Popovic-fjölskyldunni á nýtt heimili þeirra á Mýrarbraut 16. Í fjölskyldunni voru faðirinn Zeljko, móðirin Radmila, sonurinn Bosko, átta ára, og dóttirin Nikolina, sex ára, sem hingað voru komin að flýja stríð og leita að betra lífi.
Móttökurnar voru afar góðar og vel undirbúnar, en hver fjölskylda fékk fullbúið húsnæði, auk stuðningsfjölskyldna. Þegar Popovic-börnin, Nikolina og Bosko, sáu hið nýja heimili sitt þar sem þau fengu sérherbergi ljómuðu þau af gleði. Sérstaklega er minnisstætt hvað litla Nikolina var spennt; hún handfjatlaði nýtt dót, smellti kossi á nýjan íslenskan leikfélaga og brosti út að eyrum. Ljósmyndarinn beindi linsunni að litlu stúlkunni á því augnabliki þegar hún handfjatlaði nýja perlufesti og barnsleg gleðin leyndi sér ekki.
Nýverið rakst undirrituð fyrir tilviljun á þessa gömlu blaðagrein sem var heilsíða í Morgunblaðinu hinn 23. júní 1998. Næstum þrír áratugir hafa liðið og þessi atburður var fallinn í gleymskunnar dá hjá blaðamanni en rifjaðist upp við að sjá greinina. Það fyrsta sem fór í gegnum hugann var: hvað skyldi hafa orðið um litlu stelpuna með dökku krullurnar, litlu stelpuna með perlurnar?
Blaðamaður var ekki lengi að finna ungu konuna á Facebook. Hún var fús að hitta blaðamann og rifja upp gamla tíma, en þrátt fyrir ungan aldur man hún glöggt eftir þessum degi þegar fjölskyldan flúði stríð og flutti til Íslands. Hér búa þau öll enn og hafa spjarað sig vel, en Nikolina er lyfjafræðingur í dag. Hún lítur á sig sem Íslending með serbókróatískar rætur.
Manstu eftir ferðalaginu til Íslands?
„Ég man að við fórum til Belgrad og fórum þar í almenningsgarð. Ég man líka að þegar mamma sagði að nú værum við að fara til Íslands spurði ég hana hvort ég fengi þá loksins skrifborð svo ég gæti lært,“ segir hún.
„Ég man lítið eftir ferðinni sjálfri en man eftir rútuferðinni frá Keflavík og alla leið á Blönduós. Ég man að ég fékk að smakka epla-svala í fyrsta skipti og mér fannst hann svo góður að ég drakk þrjá í rútunni. Þetta var það besta sem ég hafði smakkað!“ segir hún og brosir.
„Ég var sex ára og er með nokkrar minningar frá þessu kvöldi. Ég man að við fórum fyrst í félagsheimilið og fengum gúllas, sem var besta gúllas sem ég hef fengið. Ég man eftir þegar við röltum að húsinu og líka þegar ég sá herbergið mitt og fékk að skoða dótið. Ég var að átta mig á því að þetta var dót fyrir mig. Og þarna sá ég skrifborðið mitt og varð svo glöð,“ segir Nikolina.
„Við fengum parhús sem var fullinnréttað og ísskápurinn var fullur af mat. Þú getur ímyndað þér viðbrigðin að koma úr fátækt og inn í þetta hús. Ég man ég hugsaði: „er mig að dreyma?““ segir hún.
Manstu eftir perlufestinni?
„Já, ég átti hana örugglega í tuttugu ár en þá slitnaði hún. Ég fékk líka skartgripaskrín sem var eins og hjarta í laginu og enn þann dag í dag nota ég það. Ég neita að henda sumum hlutunum sem ég fékk þarna. Ég á enn prjónaða húfu frá þessum tíma sem ég var alltaf með. Ég mun ekki henda henni.“
Nikolina segir þau hafa fengið dásamlegar móttökur. Tvær stuðningsfjölskyldur sem þeim var úthlutað hjálpuðu þeim mikið að aðlagast nýjum heimkynnum. Hópurinn bjó fyrsta árið á Blönduósi en þá fluttu flest þeirra á höfuðborgarsvæðið, meðal annars Popovic-fjölskyldan sem settist að í Kópavogi.
„Foreldar mínir búa enn í Kópavogi. Bróðir minn er rafvirkjameistari í dag. Ég tala stundum um það við mömmu hvað við krakkarnir úr hópnum höfum öll spjarað okkur vel. Öll börnin hafa klárað iðnnám eða háskólanám.“
Faðir Nikolinu lenti í fangabúðum í stríðinu en var heppinn að komast lifandi frá því. Hann átti yfir höfði sér fimmtán ára fangelsisdóm ef hann myndi snúa aftur í gamla þorpið, fyrir þátttöku sína í stríðinu. Því var það ekki í boði.
Eftir að stríðinu lauk vildi fjölskyldan ekki flytja til baka, enda mikil óvissa í landinu eftir stríðið.
„Þau vildu vera hér í örygginu og vildu ekki rífa okkur aftur upp,“ segir Nikolina en eftir grunnskóla fór hún í Kvennaskólann og þaðan í lyfjafræði í Háskóla Íslands.
„Ég tók meistaragráðu í lyfjafræði og vinn í dag í apótekinu í Costco. Ég valdi lyfjafræðina af því að mér finnst gaman að hjálpa fólki og ég elskaði líffræði og efnafræði,“ segir Nikolina og íhugaði að fara í læknisfræði en lyfjafræðin varð ofan á og sér hún ekki eftir því.
Foreldrar Nikolinu vildu að börnin gleymdu ekki uppruna sínum, á sama tíma og þau vildu að þau aðlöguðust íslenskum siðum.
„Þau pössuðu vel upp á að við héldum okkar móðurmáli. Við systkinin vorum farin að tala íslensku okkar á milli en mamma og pabbi sögðu okkur að tala serbókróatísku heima. Árið 2002 byrjuðum við að fara árlega í heimsókn í bæinn okkar í Króatíu og gamla húsið okkar, til afa og ömmu. Mörg húsanna voru brunnin en ekki okkar, þótt það hafi verið illa farið eftir stríðið,“ segir hún.
„Það eru ekki allir jafn heppnir og við. Ég hef stundað hugsað um það hvar ég væri í dag ef það hefði ekki orðið stríð, eða ef mamma og pabbi hefðu ekki flúið. Ég veit það ekki. Mamma segir þetta vera örlög; að þetta hafi verið skrifað í skýin. Ég er mjög ánægð hér og gæti ekkert ímyndað mér lífið neitt öðruvísi. Ég er mjög stolt af þessari litlu stelpu; hún hefur náð langt.“
Ítarlegt viðtal er við Nikolinu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.