Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hefur farið í 15 útköll á dælubílum frá því klukkan hálf átta í morgun. Í langflestum tilfellum hefur verið um að ræða vatn sem hefur flætt inn í kjallara.
Umfangsmesta verkefnið var við verslunar- og skrifstofuhúsnæði á Dalvegi 30 í Kópavogi, þar sem mikið vatn flæddi inn í bílakjallara og ógnaði tölvukerfum og rafmagni.
Slökkviliðsmenn voru frá því frá því snemma í morgun og frameftir degi að dæla vatni úr kjallaranum, að sögn Stefáns Kristinssonar, varðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.
„Það var mjög mikið vatn. Þetta var 1.500 fermetra bílakjallari. Það var hátt upp í hann 70 til 80 sentimetrar þegar mest var. Það fór inn í geymslur og ógnaði rafmagni og tölvukerfum,“ segir Stefán í samtali við mbl.is.
Útköllin voru um allt höfuðborgarsvæðið og segir Stefán fráveitukerfið ekki að hafa haft við vegna mikillar rigningar og hláku síðasta sólarhringinn.
Hann segir það sjaldnast þannig að vatnstjónið megi rekja til þess að fólk hafi ekki losað frá niðurföllum.
„En það gætu verið stíflur í fráveitukerfunum líka og þess vegna lekur ekki nógu mikið frá því.“
Þá hefur verið farið um 50 sjúkraflutninga frá klukkan hálf átta í morgun, sem þykir ansi mikið á laugardegi, að sögn Stefáns.
„Slysadeildin er á hvolfi, eins og svo oft áður.“