Mikið annríki hefur verið hjá slökkviliði á höfuðborgarsvæðinu síðasta sólarhringinn og sagði Stefán Kristinsson varðstjóri frá hátt í þrjátíu útköllum á dælubíla í samtali við mbl.is nú í morgun.
„Í nótt voru níu útköll á dælubíla og mikið að gera á sjúkrabílum líka,“ sagði varðstjórinn enn fremur frá og kvaðst hafa verið með þrjá dælubíla í vinnu það sem af væri dagvaktinni í dag.
Inn flæddi í bílakjallara í Kópavogi og lá vatnsborð hátt þar inni með tilheyrandi tjóni. „Geymslur og rafmagnstöflur fóru undir vatn og þau komust ekki inn einu sinni, svo mikið var vatnið og þrýstingurinn,“ segir Stefán að lokum af afleiðingum mikillar úrkomu síðasta sólarhringinn, en eins og mbl.is greindi frá undir miðnætti í gær hvatti slökkvilið fólk til að huga vel að niðurföllum sínum og halda þeim greiðfærum.