Rask í kjallara bókasafns

Brynjar Karl Óttarsson sögukennari á sér óvenjuleg en góðra gjalda …
Brynjar Karl Óttarsson sögukennari á sér óvenjuleg en góðra gjalda verð áhugamál og grúskar í fornum safnkosti Amtsbókasafnsins á Akureyri í kjallara þess þar sem ýmissa grasa kennir. Hefur hann fundið áritun eins merkasta málfræðings Dana fyrr og síðar á bók þar niðri. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er mik­ill áhugamaður um sögu og sér­stak­lega sögu heima­byggðar,“ seg­ir Brynj­ar Karl Ótt­ars­son, sögu­kenn­ari við Mennta­skól­ann á Ak­ur­eyri, göngugarp­ur og grúsk­ari í ís­lensk­um fræðum, sem um jól­in gerði merki­lega upp­götv­un þar sem hann var við rann­sókn­ir á Amts­bóka­safn­inu á Ak­ur­eyri.

Brynj­ar lauk á sín­um tíma prófi frá Kenn­ara­há­skóla Íslands heitn­um og sinnti grunn­skóla­kennslu fram að því er hann tók við stöðu sinni við mennta­skól­ann forna norðan heiða. Stríðsminj­ar eru hon­um sér­stak­lega hug­leikn­ar og til­heyr­ir hann á þeim vett­vangi göngu­hópn­um Varðveislu­mönn­um minj­anna sem ger­ir víðreist við Eyja­fjörðinn og er raun­ar alls ekki langt síðan Brynj­ar ræddi þetta hjart­ans mál sitt við mbl.is í ág­úst.

„Ég er á kafi í sögugrúsk­inu sam­hliða kennslu,“ seg­ir kenn­ar­inn sem er bor­inn og barn­fædd­ur Eyf­irðing­ur og hef­ur búið við fjörðinn alla sína ævi að frá­töld­um þrem­ur náms­ár­um í höfuðstaðnum. Við fær­um talið að upp­götv­un þeirri sem viðtalið snýst um.

„Meðal þess sem ég er að rann­saka er bóka­send­ing breskr­ar hefðar­konu til Amts­bóka­safns­ins á Ak­ur­eyri í aðdrag­anda seinni heims­styrj­ald­ar,“ seg­ir Brynj­ar frá, en inn­gang­ur­inn snýst um konu þessa, May Morr­is, dótt­ur breska rit­höf­und­ar­ins og tex­tíl­hönnuðar­ins Williams Morr­is sem var mik­ill Íslands­vin­ur og áhugamaður um nor­ræn fræði.

Morr­is lærði ís­lensku af Ei­ríki Magnús­syni, bóka­verði í Cambridge, og þýddi marg­ar Íslend­inga­sög­ur í sam­starfi við hann auk þess að gefa Gunn­laugs sögu Ormstungu út, Grett­is sögu og Völsunga­sögu.

Hér má sjá Varðveislumenn minjanna sem hafa gert víðreist um …
Hér má sjá Varðveislu­menn minj­anna sem hafa gert víðreist um byggðir og óbyggðir við Eyja­fjörðinn. Frá vinstri: Ein­ar Aðal­steinn Brynj­ólfs­son, Ní­els Ómars­son, Brynj­ar Karl Ótt­ars­son og Arn­ar Birg­ir Ólafs­son. Ljós­mynd/​Aðsend

Leyfi til að sækja kjall­ar­ann

„May Morr­is eignaðist vini hérna á Ak­ur­eyri og rétt áður en hún lést sendi hún ýms­ar gjaf­ir frá Kelmscott-setr­inu, þar sem hún bjó, víða um Bret­land og reynd­ar út fyr­ir land­stein­ana líka og meðal þeirra voru 400 bæk­ur sem komu til Húsa­vík­ur 1936 og aðrar 400 til Amts­bóka­safns­ins vorið 1939,“ seg­ir Brynj­ar frá.

Það sem hann seg­ir spenn­andi við sögu Morr­is-feðgin­anna er skort­ur á skrán­ing­um um gjaf­ir dótt­ur­inn­ar, slík­ar hafi í það minnsta ekki enn fund­ist á Amts­bóka­safn­inu. „Samt leik­ur eng­inn vafi á því að safnið fékk þessa send­ingu,“ seg­ir Brynj­ar, „Davíð Stef­áns­son frá Fagra­skógi var amts­bóka­vörður á þess­um tíma og hann skrifaði grein í Íslend­ing vorið ´39 þar sem hann þakk­ar fyr­ir bóka­gjöf­ina og út­list­ar frá hverj­um hún er og hvers lags bæk­ur þetta eru,“ held­ur hann áfram.

Seg­ir Brynj­ar ekki ólík­legt að inn­an um bæk­urn­ar sem May Morr­is gaf á dán­ar­beði hafi leynst bæk­ur frá föður henn­ar. „Um þetta er ég mjög for­vit­inn og er að fara af stað í þessa vinnu og þar sem eng­in gögn finn­ast um þessa gjöf hjá safn­inu er plan B að fara á safnið og leita. Ég fékk leyfi til þess að fara niður í kjall­ara safns­ins og fara í gegn­um gaml­ar bæk­ur sem eru ekki leng­ur til út­láns. Þarna leyn­ast safn­grip­ir sem ná jafn­vel langt aft­ur í ald­ir,“ seg­ir hann frá.

Glæsileg bygging Amtsbókasafnsins á Akureyri gefur ekki til kynna að …
Glæsi­leg bygg­ing Amts­bóka­safns­ins á Ak­ur­eyri gef­ur ekki til kynna að safnið verði 200 ára gam­alt á þarnæsta ári, en engu að síður er það svo enda safn­kost­ur­inn merki­leg­ur og drýp­ur sag­an af hon­um. Ljós­mynd/​ak­ur­eyri.is/​Ragn­ar Hólm Ragn­ars­son

Og hér dreg­ur til tíðinda úr allt ann­arri átt – mitt í rann­sókn sögu­kenn­ar­ans á breskri bóka­gjöf.

„Þar rakst ég á bók Rasmus­ar Christians Rask,“ seg­ir Brynj­ar og vís­ar þar til hins kunna danska mál­fræðings sem var mik­ill Íslands­áhugamaður og dvaldi lang­dvöl­um á land­inu í heim­sókn snemma á 19. öld, á sama tíma og Napó­leon Bónapar­te átti í þeim styrj­öld­um er við hann eru kennd­ar á evr­ópska meg­in­land­inu.

Brynj­ar held­ur úti fróðlegri síðu á lýðnet­inu, Grennd­argralinu, og við gríp­um niður í klausu þar um Rask:

Rask var mál­fræðing­ur og einn fremsti mál­vís­indamaður síns tíma. Næm til­finn­ing og hæfi­leiki til að læra ný tungu­mál komu fram á unga aldri í til­felli Rask. Hann var áhuga­sam­ur um Ísland, raun­ar svo mjög að hann lærði að tala ís­lensku sem Íslend­ing­ur væri. Þetta gerði hann með Heimskringlu að vopni og sam­töl­um við Íslend­inga í Kaup­manna­höfn.

Íslensk mál­fræði var hon­um sér­lega hug­leik­in eins og sjá má í Vej­ledn­ing til det Is­lands­ke ell­er gamle Nordiske Sprog en hún er kennslu­bók í mál­fræði. Hún var fyrsta bók­in sem Rask skrifaði og vakti strax mikla at­hygli fyr­ir ný­stár­leg efnis­tök.

Svo vildi til að Brynj­ar rakst á ein­tak af téðri bók Rask, sem út kom í Kaup­manna­höfn árið 1811, í kjall­ara bóka­safns­ins og fann á saur­blaði henn­ar handskrifaða árit­un sem held­ur bet­ur vakti áhuga hans – og mun án allra tví­mæla vekja áhuga fleiri sem láta sér annt um forn fræði, mál­vís­indi og þjóðleg­an fróðleik. Er sú eft­ir­far­andi:

Há­vel­bor­inn

Hra kon­f­erenzráði St. Thor­ar­en­sen

með hæztu virðingu og þakk­lát­semi

frá höf­und­in­um.

Kveður Brynj­ar nán­ari at­hug­un nú hafa leitt í ljós að bók þessi, árituð af Rask sjálf­um, hafi verið gjöf til Stef­áns Thor­ar­en­sen, amt­manns á Möðru­völl­um í Hörgár­dal (1754 – 1823). „Stefán er ekki síður áhuga­verð per­sóna í sög­unni en það sem meira er, þarna eru líka tengsl við May og William Morr­is. Ég fann bók frá 18. öld merkta Stefáni en hún hef­ur ákveðin sér­kenni sem hægt er að rekja til þeirra feðgina. Þetta er allt mjög spenn­andi,“ lýs­ir Brynj­ar.

Áritun Rasmusar Christians Rask í höfundarverki hans frá 1811, Vejledning …
Árit­un Rasmus­ar Christians Rask í höf­und­ar­verki hans frá 1811, Vej­ledn­ing til det Is­lands­ke ell­er gamle Nordiske Sprog, en Rask var mik­ill áhugamaður um Ísland og ís­lenska tungu og spáði ör­lög­um henn­ar þannig í Íslands­heim­sókn sinni snemma á 19. öld að ólík­legt væri að nokk­ur maður í land­inu talaði ís­lensku að hundrað árum liðnum og úti­lokað tvö hundruð árum eft­ir það, sem er eft­ir um það bil 90 ár svo spenn­andi verður að sjá hvort dansk­ur fræðimaður spáði rétti­lega fyr­ir um dauða ís­lensk­unn­ar 300 árum áður en til hans kom...eður ei. Ljós­mynd/​Aðsend

Und­ir­skrift­in illlæsi­leg í fyrstu

Hann hafi í fram­hald­inu farið að hafa aug­un opin fyr­ir bók­um merkt­um amt­mann­in­um. „Hann var mik­ill bókamaður sjálf­ur og svo virðist sem eitt­hvað af bók­um úr hans fór­um hafi endað á Amts­bóka­safn­inu,“ seg­ir Brynj­ar og bend­ir á að for­veri bóka­safns­ins, sem stofnað er árið 1827, hafi verið lestr­ar­fé­lag sem Stefán stofnaði sjálf­ur árið 1791.

„Þannig að þetta rím­ar al­veg, að eitt­hvað af hans bók­um hafi endað á safn­inu og séu þannig enn í vörsl­um safns­ins,“ seg­ir Brynj­ar frá og ját­ar að hann hafi í fyrstu ekki áttað sig fylli­lega á að bók­in sem hann hafði í hönd­um sér hefði verið gjöf Rask fyr­ir tveim­ur öld­um og rúm­lega það vegna þess hve sjálf und­ir­skrift­in, „frá höf­und­in­um“, hafi verið ólæsi­leg.

„Ég var bú­inn að ráða efri hlut­ann, kveðjuna, en áttaði mig ekki á hvað kom á eft­ir „frá“, ég var alltaf að reyna að tengja við eitt­hvað ákveðið nafn og það var ekki fyrr en ég hætti því að ég áttaði mig á að þarna stæði „frá höf­und­in­um“ og Rask er vissu­lega höf­und­ur bók­ar­inn­ar auk þess sem hann var hér á landi árin 1813 – ´15,“ held­ur Brynj­ar áfram og seg­ir að nán­ast eng­inn vafi geti leikið á því að þarna sé komið ein­tak af bók Rasks sem hann gaf Stefáni amt­manni þegar hann heim­sótti hann í júlí 1814.

Mynd danska listmálarans Emiliusar Ditlevs Bærentzen, í daglegu tali Emils …
Mynd danska list­mál­ar­ans Em­ilius­ar Dit­levs Bær­entzen, í dag­legu tali Em­ils Bær­entzen, af Rask, en Bær­entzen var ým­is­legt til lista lagt. Var hann lög­fræðing­ur og um tíma apó­tek­ari en þekkt­ast­ur varð hann af mál­verk­um sín­um af þjóðþekkt­um Dön­um. Mynd/​Emil Bær­entzen

Alltaf hægt að draga í efa

Sem grúsk­ari kveðst Brynj­ar vera kom­inn í gull­kistu í kjall­ara safns­ins. Að hafa fundið bók­ar­gjöf Rask með árit­un hans sé aðeins eitt dæmi þar um. „Það sem hef­ur ekki verið gert lengi – og jafn­vel ekki ára­tug­um sam­an – er að fletta þess­um bók­um og það er það sem ég er að gera. Eins og við vit­um var oft verið að skrifa inn í bæk­ur í gamla daga og ég hef fundið eitt og annað for­vitni­legt,“ seg­ir Brynj­ar og nefn­ir dæmi.

Eitt þeirra dæma snýr að nafni Láru Ólafs­dótt­ur, titil­per­sónu í Bréfi til Láru eft­ir Þór­berg Þórðar­son og nú slær sögu­kenn­ar­inn varnagla áður en lengra er haldið, að sið vandaðra fræðimanna sem taka sig al­var­lega.

„Ég tek það fram að þetta eru mín­ar rann­sókn­ir og mín­ar niður­stöður og auðvitað ber ég þær und­ir fólk í kring­um mig. Engu að síður er alltaf hægt að draga þær í efa,“ seg­ir hann og held­ur áfram.

„Ég tel nokkuð víst að ég hafi fundið Kvenna­fræðarann eft­ir El­ínu Briem, ein­tak sem var í eigu Láru Ólafs­dótt­ur, vin­konu Þór­bergs, og auk þess bók frá 1844 sem er merkt Friðriks­gáfu 17. fe­brú­ar 1869. Friðriks­gáfa var sem kunn­ugt er gjöf Friðriks VI. Dana­kon­ungs og reist árið 1829 en brann til kaldra kola vorið 1874,“ seg­ir Brynj­ar sem ofan á fram­an­greint fann bók­ar­gjöf frá Kon­ráði Gísla­syni Fjöln­is­manni til Odd­geirs Stephen­sen ráðuneyt­is­stjóra.

Lang­ur tími – skamm­ur veg­ur

Er því ekki örgrannt um að grúsk­ar­ar og fræðimenn á Norður­landi séu iðnir við kol­ann og verður for­vitni­legt að sjá hverju elju­verk Brynj­ars Karls Ótt­ars­son­ar sögu­kenn­ara í kjall­ara Amts­bóka­safns­ins á Ak­ur­eyri eyk­ur við þekk­ingu bókaþjóðar­inn­ar í norðri er fram líða stund­ir.

Við hæfi er að slá botn­inn í viðtalið með klausu úr um­fjöll­un Brynj­ars á Grennd­argralinu um bók mál­fræðings­ins danska:

Tím­inn sem nú er liðinn frá því að Rasmus Rask áritaði bók fyr­ir amt­mann er orðinn lang­ur. Ferðalag bók­ar­inn­ar frá amt­manns­setr­inu gamla yfir í hillu Amts­bóka­safns­ins er hins veg­ar ekki svo ýkja langt.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert