Snjóflóð féll yfir þjóðveginn undir Ólafsvíkurenni í gærkvöldi.
Slökkviliðsstjóri Snæfellsbæjar, Svanur Tómasson, átti leið hjá fyrir tilviljun og sá flóðið falla um 300 metrum frá sér.
„Þetta var það stærsta sem ég hef séð í minni tíð. Það féll ásamt öðrum minni flóðum en þetta flóð fór yfir þjóðveginn út á Hellissand,“ segir Svanur í samtali við mbl.is.
Þá segir hann flóðið hafa verið á bilinu 4 til 5 metrar á hæð.
„Í morgun eftir alla næturrigninguna sýndist mér það hafa verið svona 4 metrar á hæð, þetta náttúrulega sígur um nóttina. Þykktin á því sem var ofan á veginum var svipað á hæð og flutningabíll þegar við fórum í gegnum það,“ segir Savnur.
Að sögn Svans er vegurinn nú opinn og allt komið í eðlilegt horf.