„Mitt starf sem stéttarfélagsformaður er auðvitað að vera í hagsmunabaráttu fyrir listamenn,“ segir Birna Hafstein, formaður Félags íslenskra listamanna í sviðslistum og kvikmyndum, í samtali við mbl.is í kjölfar opins bréfs þeirra Hrafnhildar Theodórsdóttur í Morgunblaðinu í dag, en Hrafnhildur er framkvæmdastjóri félagsins sem hér eftir skammstafast FÍL.
Er opna bréfið stílað á stjórn Leikfélags Reykjavíkur, hér eftir LR, og borgarstjóra og fjallar um óheillavænlega launaþróun í Borgarleikhúsinu þar sem stórlega hallar á listamenn. Segja bréfritarar ítrekað hafa verið óskað eftir upplýsingum um laun annarra starfshópa hússins í tengslum við kjaraviðræður FÍL og LR síðustu ár og hafi LR jafnan daufheyrst við.
„Þeirri neitun hefur fylgt sú fullyrðing að það sé ákvörðun og lífsstíll að vinna í leikhúsi og allir á lágum launum,“ skrifa þær Birna og Hrafnhildur. Í haust sem leið hafi FÍL hins vegar í tvígang fengið sendingu frá Borgarleikhúsinu sem innihélt upplýsingar um laun allra starfsmanna hússins.
„Voru það mistök starfsmanns eða hreinlega guðleg íhlutun?“ spyrja bréfritarar og segja leyndarhyggjuna skiljanlega í ljósi gagnanna aðsendu. „Hjarta Borgarleikhússins slær á skrifstofunni – í það minnsta launalega,“ segir því næst.
„Nú skal ég ekki gagnrýna að fólk fái góð laun, alls ekki,“ segir Birna við mbl.is, „en þegar við erum búin að kalla eftir launaupplýsingum um annað starfsfólk í Borgarleikhúsinu í mörg ár og svo kemur það í ljós að það er bara risastór hópur í húsinu sem er á mjög fínum launum – þá er það í rauninni eins og svik og komist hafi upp um eitthvert leyndarmál, leikarar og listamenn líta bara alfarið svo á,“ heldur formaðurinn áfram.
Hún segir augljóst að Borgarleikhúsið væri ekki starfandi ef engir væru þar listamennirnir. „Í ofanálag eru dansarar og danshöfundar, sem hérlendis eru að mestu kvennastéttir, og við höfum eytt mörgum árum í að jafna stöðu þeirra miðað við aðra. Það gengur ekki neitt og Borgarleikhúsið neitar bara að horfast í augu við þetta,“ segir Birna.
„Hin upphaflega pólitíska ákvörðun hins opinbera var að styðja við LR og byggja þannig undir leiklist og listamenn. Í dag er búið jaðarsetja listamenn í leikhúsinu, í það minnsta launalega, en styðja með myndarlegum hætti við yfirstjórn og yfirbyggingu,“ heldur hún áfram.
Stjórn LR beri ábyrgð á þessari þróun og borgaryfirvöld séu meðvituð um stöðuna. „Hver ætlar að bera ábyrgð á þessari óheillaþróun? Blasir ekki við að stjórn LR og borgaryfirvöld þurfi að endurskoða og endurmeta stöðu lykilstarfsmanna leikhússins, leikara og annarra listamanna, sem eru sannarlega þeir aðilar sem búa til verðmætin sem síðan eru seld?“ spyr Birna í framhaldinu.
Kveður hún fjárhagslega afkomu LR undanfarin ár prýðilega og því sé leiðrétting kjara listamanna hvort tveggja tímabær og framkvæmanleg.
„Er ekki eðlilegt að gera þá kröfu að opinbert fé sé skilyrt með þeim hætti að það nýtist til þeirrar starfsemi sem upphaflega var ætlast til? Borgaryfirvöld og stjórn LR geta ekki endalaust vikið sér undan ábyrgð á þeirri stöðu sem við blasir,“ segir Birna ómyrk í máli.
Mörg ár hafi tekið að jafna kjör framangreindra stétta í Þjóðleikhúsinu og hjá Íslenska dansflokknum, Borgarleikhúsið sitji hins vegar á hakanum hvað varðar dansara og danshöfunda. „Og þau bara ætla ekki að gefa sig og við það er ekki hægt að sætta sig árið 2025 – að kvennastéttir séu undirsettar, og hvað þá í stofnunum sem reknar eru fyrir opinbert fé.“
Birna bendir aukinheldur á að í samningi LR og Reykjavíkurborgar sé kveðið á um að LR skuli starfa samkvæmt jafnréttisstefnu og mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar, „en það er bara ekkert gert. Þarna þrífst gríðarlegt ójafnrétti og ójafnræði – í Borgarleikhúsinu. Borgarstjóri skrifar alla jafna undir samning við LR og Einar Þorsteinsson gerði það um daginn. Hann vildi verða borgarstjóri og hann fékk að verða borgarstjóri en hann vill samt ekki bera ábyrgð á þessu og neitar auk þess að hitta okkur hjá FÍL og leikarana á spjallfundi til að fara yfir málin á yfirvegaðan hátt,“ segir Birna með festu og víkur síðan máli sínu að formanni LR, Eggerti Benedikt Guðmundssyni.
„Hann verður að standa undir þeirri ábyrgð sem hann biður um. Fólk getur ekki bara firrt sig allri ábyrgð. Eggert og stjórn LR neituðu líka að hitta okkur, en Eggert hefur nú boðað leikara á sinn fund ásamt stjórn LR, en sniðgengur okkur, fulltrúa stéttarfélags leikara, og það í miðjum kjaraviðræðum. Ég álít það ákaflega gróft og vafasamt gagnvart leikurunum að boða þá til fundar án aðkomu stéttarfélags þeirra í miðjum kjaraviðræðum,“ segir Birna enn fremur.
„Ég hef líka margoft rætt við Dag B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóra, vegna þessara kvennastétta og ég bara get ekki séð hvernig þessi staða í dag eigi eitthvað skylt við upphaflegt erindi Leikfélags Reykjavíkur í okkar samfélagi og ástæðu þess að hið opinbera ákvað að styðja við það,“ segir hún og vísar þar til opna bréfsins, þar sem þær Hrafnhildur segja af stofnun LR árið 1897 og aðdraganda þess að ríki og borg ákváðu að veita styrki til LR fyrir meira en öld. Styrki sem voru skilyrtir fjölda starfandi leikara.
Segir Birna um hreint rof að ræða milli listamanna Borgarleikhússins, sem starf hússins hverfist þó um, og annarra lykilstarfsmanna þar. „Á einhverjum tímapunkti varð þetta rof, einhvern tímann tók einhver ákvörðun um að nú ætti að hækka launin hjá skrifstofu og yfirbyggingu, en ekki hjá listamönnum. Við höfum talað við fyrrverandi starfsfólk í Borgarleikhúsinu sem var við störf þegar þetta var ekki svona og það trúir ekki sínum eigin eyrum um að þetta sé staðan,“ segir hún frá.
„Þeir aðilar sem sækjast eftir ábyrgð verða bara að standa undir þeirri ábyrgð. Annars verðum við bara að fá einhverja aðra í verkefnið,“ segir Birna Hafstein, formaður Félags íslenskra listamanna í sviðslistum og kvikmyndum, að lokum um þann skarða hlut sem þær Hrafnhildur Theodórsdóttir framkvæmdastjóri segja listafólk Borgarleikhússins bera frá borði samanborið við aðra lykilstarfsmenn þar í húsinu.