Sigurjón Þórðarson, alþingismaður og oddviti Flokks Fólksins í Norðausturkjördæmi hefur ekki sinnt upplýsingaskyldu sem á honum hvílir þegar kemur að svokallaðri hagsmunaskráningu Alþingis.
Þannig má sjá að í þriðju grein skráningarinnar segist hann engin tengsl hafa við starfsemi sem „rekin er samhliða starfi alþingismanns og er tekjumyndandi fyrir hann eða félag sem hann á sjálfur eða er meðeigandi í.“
Í þeirri skráningu er einnig tilgreint að sé um slík tengsl að ræða þá beri að upplýsa hverrar tegundar starfsemin er.
Líkt og fram kom í þættinum Spursmál á mbl.is í gær þar sem Hanna Katrín Friðriksson, nýr atvinnuvegaráðherra var til svars, á Sigurjón ásamt eiginkonu sinni fyrirtækið Sleppa ehf. sem gert hefur út bátinn Sigurlaugu SK 138 til strandveiða hin síðustu ár og hafa tekjur af útgerðinni numið tugum milljóna króna. Ráðherra hafði ekki vitneskju um þetta þegar hún var innt eftir því.
Samkvæmt upplýsingum mbl.is hefur Sigurjón sjálfur róið bátnum til veiða. Opinber gögn frá Fiskistofu staðfesta að veiðar voru þó nokkrar á síðasta fiskveiðiári. Síðast landaði Sigurlaug 716 kg af óslægðum afla þann 16. júní 2024. Þar af voru 693 kg. af þorski, 21 kg. af ýsu og 2 kg. af ufsa.
Það er aðeins síðar í hagsmunaskránni sem fram kemur að hann eigi 50% hlut í fyrirtækinu Sleppa ehf. en þar er hvorki tilgreint hverrar tegundar starfsemi félagsins er, né heldur hvort tekjur hljótist af starfseminni. Í sömu skrá er tilgreint um eignarhlut þingmannsins í flugfélaginu Icelandair og er eignin þar sögð „um 1900 þús.“ en ekki tilgreint hversu mörgum hlutum í félaginu hann haldi á. Verðmæti hlutarins sveiflast hins vegar eftir gengi flugfélagsins í Kauphöll Íslands á hverjum tíma.
Athygli vekur að hagsmunaskráning Sigurjóns hefur samkvæmt vef Alþingis ekki verið uppfærð síðan 5. júní 2023.
Sigurjón brást við umfjöllun Spursmála um eignarhald hans á Sleppa ehf. Gerði hann það í facebook-færslu sem birt var áður en þátturinn fór í loftið.
Þar tilgreinir Sigurjón að báturinn Sigurlaug SK 138 sé í söluferli. Hins vegar upplýsir hann sömuleiðis að fyrr í þessari viku hafi báturinn síðast verið gerður út og þá vegna sýnatöku fyrir Náttúrustofu Norðurlands vestra.
Mbl.is hefur kallað eftir upplýsingum frá Sigurjóni um þau umsvif. Á grundvelli hvaða samstarfs eða samnings sýnatakan á sér stað og hverjar tekjur Sleppa ehf. af þeim eru. Svara er beðið við þeirri fyrirspurn.
Upplýst hefur verið að Sigurjón sé næsti formaður atvinnuveganefndar þingsins. Ljóst er að forgangsmál ríkisstjórnarinnar, um stóreflingu strandveiða, mun koma til kasta nefndarinnar á komandi þingi.
Í fyrrnefndu viðtali við Hönnu Katrínu Friðriksson fullyrti hún að Sigurjón myndi ekki koma að afgreiðslu málsins vegna þeirra hagsmuna sem hér hafa verið tilgreindir, en ekki sér stað í hagsmunaskráningu þingsins.
Flokkur fólksins hefur verið í fararbroddi þeirra sem stórefla vilja strandveiðar hringinn í kringum Ísland og hefur Sigurjón Þórðarson skipað sér í framvarðasveit þeirrar umræðu.
Flest bendir til þess að fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar sem nú situr muni leiða til þess að strandveiðisjómenn geti allt að tvöfaldað tekjur sínar af strandveiðum á komandi sumri miðað við það sem var á liðnu ári. Enn á þó eftir að kynna nákvæmar útfærslur í þeim efnum.
Útgerðin Sleppa ehf. gæti því notið verulega góðs af þessum breytingum. Eins má gera ráð fyrir því að verðlagning á bátum sem gerðir eru út í þessu skyni kunni að taka breytingum í ljósi þess að tekjuöflunarmöguleikar strandveiðisjómanna munu vænkast til muna, gangi fyrirætlanir þingmeirihlutans eftir.
Viðtalið við Hönnu Katrínu Friðriksson, þar sem málefni Sigurjóns eru meðal annars til umfjöllunar má sjá og heyra í spilaranum hér að neðan: