Ýmsir hlutir, staðir og fyrirbæri eru fyrir löngu orðnir samofnir sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar. Má þar nefna sundlaugamenninguna, þorrablótin, kokteilsósuna, lopapeysuna, pulsu og kók og íslenska Brennivínið.
Í gær voru 90 ár frá því hið síðastnefnda kom á markað. Hefur það allar götur síðan átt sér fastan sess í tilveru landsmanna – mismikinn vissulega eftir tímabilum – og átt sér þekkta aðdáendur á borð við Jóhannes Kjarval listmálara. Raunar hefur hróður þess fyrir löngu borist út fyrir landsteinana og meðal þeirra sem talað hafa opinskátt um aðdáun sína eru tveir af þekktari rokkurum samtímans; Dave Grohl og gítarleikarinn Slash.
Íslenska Brennivínið kom á markað þegar áfengisbannið var afnumið 1. febrúar 1935. Fyrst um sinn var það framleitt af Áfengisverslun ríkisins og kostaði flaskan sjö krónur.
Svarti miðinn á flöskunni var sagður hannaður til að takmarka eftirspurn. Mörgum þótti enda bara vanta hauskúpu og viðvörum til að flaskan væri eins og eiturflöskur voru í þá daga. Andstæðingar Brennivínsins voru ekki lengi að gefa gutlinu nafnið Svarti dauði og hefur það fylgt alla tíð síðan. Raunar þótti þetta svo sniðugt að síðar var önnur útgáfa brennivíns markaðssett undir nafninu Black Death í útlöndum.
Alla tíð hefur verið farið með uppskriftina að Brennivíninu sem hernaðarleyndarmál. Fjallað var um þetta í tímaritinu Vikunni árið 1979: „Mun hún þannig til komin að þeir P.L. Mogensen lyfsali og fyrsti forstjóri Áfengisverslunarinnar, og arftaki hans, Guðbrandur Magnússon, hafi prófað sig áfram með ýmsar uppskriftir og smakkað drjúgan, þangað til þeir duttu niður á þetta sérstaka bragð, sem landslýður til sjávar og sveita þekkir,“ sagði þar.
Til viðbótar var í umfjöllun tímaritsins haft eftir manninum sem sá um að blanda Brennivínið, en sá var reyndar mjólkurfræðingur að mennt, að meginuppistaðan væri Gvendarbrunnavatn blandað með innfluttum spíra frá Póllandi og Danmörku auk smávegis af kúmenolíu og fleiru.
„Brennivín er auðvitað það áfengi sem var langsamlega vinsælast hérlendis lengst af á síðustu öld. Allt frá 1935 og trúlega þar til bjórinn var leyfður þann 1. mars 1989. Við heimildaskoðun hefur mér sýnst að salan hafi náð hámarki seinni hluta áttunda áratugarins en þá seldust eitthvað á fimmta hundrað þúsund lítrar af Brennivíni hérlendis ár hvert.
Rétt er að hafa í huga að á landinu bjuggu þá undir 200 þúsund manns og ferðamenn voru aðeins lítið brot af því sem við þekkjum í dag. Með tilkomu bjórsins minnkaði hins vegar sterkvínsmarkaðurinn mikið og menning í kringum áfengi varð mun fjölbreyttari,“ segir Úlfar Árdal, yfireimingarmeistari Brennivíns hjá Ölgerðinni.
Brennivínsflaskan hefur breyst talsvert á þessum 90 árum. Hér að ofan má sjá nokkrar slíkar sem eru í eigu Ölgerðarinnar. Lengst til vinstri er nú nýjasta en lengst til hægri sú elsta, frá því um 1940. „Flestir tengja trúlega Brennivín við grænu flöskuna sem það var gjarnan framleitt í upp úr miðri síðustu öld. Græni tónninn breyttist svo úr einhvers konar mosagrænum náttúrulegri tón og yfir í tilraunastofu-skærgrænan undir lok aldar.“
Úlfar segir enn fremur að salan á Brennivíni um miðja síðustu öld hafi verið svo mikil að ekki hafi alltaf reynst hlaupið að því að afla hráefnis og umbúða.
„Einhvern tímann heyrðum við því fleygt að „Brennivínið hafi á tímum einfaldlega verið sett í þær umbúðir sem fundust“ þegar verst lét. Það er því ljóst að hægt er að finna talsvert af ólíkum eldri flöskugerðum af Brennivíni. Miðinn hefur hins vegar haldið mun meiri formfestu og mjög ánægjulegt er hversu nálægt hann er sínu upphaflega útliti enn þann dag í dag.“
Íslenska ríkið hætti framleiðslu á Brennivíni árið 1992 og í dag er það framleitt hjá Ölgerðinni. Nýverið var framleiðslan flutt í nýtt eimhús, Kveldúlf Distillery. Myndin af Úlfari sem fylgir greininni er einmitt tekin í þessu eimhúsi.
„Tækin eru sérsmíðuð af Arnold Holstein í Þýskalandi, fyrsta flokks og útbúin öllu því sem þarf til að framleiða úrvals íslenskt Brennivín. Þá höfum við verið að vinna í þróun fleiri vína sem vonandi líta dagsins ljós á komandi misserum.“
Bryddað hefur verið upp á ýmsum nýjungum í framleiðslunni síðustu ár. Þannig hafa Úlfar og félagar prófað að nota íslenskt kúmen í brennivínsgerðinni en framboð af því er að hans sögn nokkuð takmarkað.
Hann rifjar upp að ÁTVR hafi byrjað að þróa tunnuþroskað Brennivín á seinni hluta síðustu aldar og sett á markað svokallað „Gamalt Brennivín“. Í takt við þetta hafi Ölgerðin byrjað að gera tilraunir með að þroska Brennivín í ýmsum tegundum af tunnum fyrir rúmum áratug.
Til að mynda í bourbon-tunnum, sérrítunnum og tunnum undan ýmsu sætvíni og bjór. Fjölmargar slíkar útgáfur hafi notið mikilla vinsælda. „Þar fer jólaútgáfa Brennivíns fremst í flokki en einnig vörulínan Brennivín Special Cask Selection og Single Cask-útgáfulínan.“
Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. janúar.