„Við erum bara á tánum og í viðbragðsstöðu,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is þegar hann er spurður út í stöðuna á Reykjanesskaga.
Líkur á eldgosi á Sundhnúkagígaröðinni þykja fara vaxandi með hverjum deginum.
Hættustigi var lýst yfir vegna hættu á eldgosi á Sundhnúkagígaröðinni á fimmtudaginn en landris og kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram og magn þeirrar kviku sem safnast hefur saman undir niðri nálgast nú það magn sem kom upp í síðasta eldgosi í desember.
„Þetta hefur haldist nokkuð stöðugt áfram,“ segir Benedikt en slæmt veður síðustu daga hefur haft áhrif á mælakerfi Veðurstofunnar og verður það áfram miðað við veðurspá næstu dagana.
Benedikt segir að staðan sé sú að búast megi við gosi hvenær sem er.
„Það er engin leið að segja til um það hvenær það byrjar að gjósa. Mögulega geta einhverjar vikur liðið en við erum komin á þann stað núna að við verðum að gera okkur klár,“ segir hann.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum ráðleggur fólki frá því að vera á ferðinni í Grindavík að nauðsynjalausu en sjö eldgos hafa brotist út við Sundhnúkagígaröðina frá 18. desember 2023.