Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, kveðst hafa áhyggjur af því ástandi sem kann að skapast vegna yfirvofandi tollastríðs Bandaríkjanna við önnur ríki.
Segir hann Viðskiptaráð berjast fyrir frelsi og framförum og að ástandið leiði til afturfarar á báðum sviðum. Ráðið hafi upphaflega verið stofnað til að draga úr tollum og öðrum viðskiptahindrunum fyrir meira en 100 árum síðan.
„Þannig er þetta atburðarás sem stendur okkur nærri og okkur líst illa á,“ segir Björn.
Telur hann að íslensk stjórnvöld ættu að anda með nefinu og stíga varlega til jarðar þegar kemur að yfirlýsingum á þessu stigi. Vera ekki endilega að blanda sér í deilur sem ekkert segi að við þurfum að vera hluti af enn sem komið er.
„Við erum ekki í Evrópusambandinu, sem er tollabandalag. Við rekum okkar eigin stefnu í tollamálum og ættum að hegða okkur í samræmi við það. Ef Bandaríkin og Evrópusambandið reisa tollmúra hvort gagnvart öðru þá þarf það ekki sjálfkrafa að hafa bein áhrif á Ísland.
Þetta snýst fyrst og fremst um að lágmarka neikvæð áhrif og það ætti að vera meginviðfangsefni íslenskra stjórnvalda núna.“
Björn segir að fyrir sitt leyti séu hærri tollar á heimsvísu vonbrigði. Tollar séu til þess fallnir að rýra lífskjör og tilhneiging flestra ríkja síðustu áratugi hafi verið að draga úr vægi þeirra. Því sé um viðsnúning að ræða í þeirri þróun sem hefur átt sér stað.
„Það er sérstaklega mikilvægt að Ísland reyni að lenda ekki í þessum stormi því tollar leggjast þyngst á smærri hagkerfi. Þeir bitna verst á fámennari ríkjum þar sem minni sérhæfing er til staðar og meiri þörf á að flytja hluti út eða inn,“ segir hann.
„Ísland ætti að reyna að bregðast við með þeim hætti að lágmarka líkur á að tollmúrar rísi hér upp gagnvart öðrum ríkjum. Stærri hagkerfi eru meira sjálfum sér næg um sínar vörur og þjónustu en minni hagkerfi eins og Ísland eiga allt undir greiðum alþjóðaviðskiptum.“
Von Björns Brynjúlfs er að þeir taktísku tollar sem tilkynnt hefur verið um og eru í umræðunni muni ekki hafa bein áhrif á Íslandi og að Íslendingar fái að sigla lygnan sjó hvað þá varðar.
„Bandaríkjamenn beita núna tollum í því skyni að fá viðsemjendur sína eða mótaðila til að bregðast við eða framkvæma ákveðna hluti. Meðal annars er talað um innflytjendur og eiturlyf og að leyfa bandarískum fyrirtækjum að flytja vörur út til Kína. Við sjáum núna til dæmis að áformuðum tollum Bandaríkjanna gagnvart Mexíkó hefur verið frestað í kjölfar samkomulags þeirra á milli,“ segir Björn Brynjúlfur
„Það má því vel vera að stjórnvöld í Bandaríkjunum líti framhjá Íslandi í þessum málaflokki. Ef það er ekkert sérstakt sem þau vilja semja við okkur um er ólíklegt að þau muni nota tolla sem prik gagnvart okkur,“ segir Björn en bætir við að ef tollar rísi á önnur Evrópuríki en Ísland þá gæti það þýtt að hlutfallslega verði útflutningsvörur frá Íslandi ódýrari í einhverjum tilfellum.
Spurður um verstu mögulegu útkomu segir Björn að það versta sem gerist sé að deilurnar stigmagnist, tollarnir verði hærri og hærri og aukin sérhæfing og milliríkjaviðskipti undanfarinna áratuga fari að rakna upp og hagkerfi heimsins breytist í meiri valdablokkir sem stundi meiri sjálfsþurftarbúskap.
„Það myndi rýra lífskjör mikið og ef Ísland yrði hluti af þeirri afturför myndi það hafa veruleg neikvæð áhrif á lífskjör okkar sem búum á þessari fámennu eyju.
Við krossleggjum bara fingur og vonum annars vegar að þetta gangi ekki lengra en raun er orðin eða gangi jafnvel hratt til baka og hins vegar að Ísland sleppi við þennan storm.“