Það má segja að við höfum á mjög stuttum tíma farið alla þá vegferð sem síðustu ríkisstjórnir hafa farið í því að reyna að ná tökum á þessu og afleiðingin af þeirri vegferð síðustu ár hefur verið svona tiltölulega brotakennd gjaldtaka hér og þar eins og þú þekkir.“
Þessum orðum bregst Hanna Katrín Friðriksson nýr atvinnuvegaráðherra við spurningu á vettvangi Spursmála um það hvernig ríkisstjórnin hyggist hrinda í framkvæmd fyrirætlunum um aukna tekjuöflun ríkissjóðs af ferðaþjónustunni. Viðtalið er aðgengilegt í heild sinni á mbl.is og öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Segir hún að skoða þurfi möguleika í þessa veru heildstætt.
„Það er í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vilji til þess að skoða auðlindagjöld heildstætt, taka þá bara þessar auðlindir okkar og átta okkur á því með auðlindastefnu hvernig við getum tryggt eðlilegt, sanngjarnt, gagnsætt gjald fyrir nýtingu réttarins.“
Greiningar sýna að þriðja hver króna sem ferðaþjónustan skilar í tekjum inn í íslenskt hagkerfi endar í fórum ríkissjóðs. Spurð út í hvort það sé ekki feikinóg sem hlutdeild hins opinbera í umsvifunum segir Hanna Katrín að þar sé um að ræða tekjur sem öll önnur fyrirtæki, sem ekki byggi starfsemi sína á auðlindum landsins, yrðu að greiða. Ferðaþjónustan geri það hins vegar og fyrir það beri að greiða gjald til þjóðarinnar.
Verkefnið sé einnig að vernda íslenska náttúru. Hins vegar sé útfærsla á slíku flókin af ýmsum ástæðum, einnig sé dýrt að innheimta gjöld á vettvangi og stundum skarist opinbert land við einkaland og slíkt mæli þá fremur með almennum komugjöldum á þá sem til Íslands komi. Þetta er hins vegar allt til skoðunar að sögn ráðherra.
Þegar talið berst að spurningunni um fyrirsjáanleika sem ferðaþjónustan hefur mjög kvartað undan, eða öllu heldur skorti á honum, tekur Hanna Katrín undir slíka gagnrýni.
„Við erum í samtali og þá er það kannski ekki akkúrat tegundin sem skiptir öllu [aðferðin við gjaldtöku á greinina] heldur fyrirsjáanleikinn sem þú nefnir því hann er mjög mikilvægur. Og það er mjög mikilvægt að höggva á þennan hnút og leysa þetta, ég ætla kannski ekki að segja í eitt skipti fyrir öll, en að minnsta kosti til lengri tíma þannig að fyrirsjáanleikinn haldist og ferðaþjónustan verði ekki fyrir því að allir ætli sér að fara með einhverjum bútasaum eða snöggsoðnum hugmyndum inn í þetta að ná tekjum. Það er stóra verkefnið,“ segir ráðherra.
Hvenær getum við skýrt þessa mynd, af því að svo verður fjárlagavinnan í haust, eruð þið þá að fara að boða það að gjaldtakan verði þá sem leggst á árið 2026?
„Ég þori ekki að fullyrða neitt um það en mér þykir frekar ólíklegt að það náist úr þessu, ef ég á að standa við orð mín um fyrirsjáanleika að það verði um áramót,“ segir Hanna Katrín.
Viðtalið við ráðherra má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan: