„Ég byrjaði að vinna á þessu svæði 1976, bæði á eynni sjálfri og við að rannsaka hafsbotninn umhverfis,“ segir Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur og prófessor emeritus, í samtali við mbl.is um grísku eyjuna Santorini í Eyjahafi, en við hana mældist fjöldi skjálfta um helgina eins og mbl.is greindi frá.
Haraldur var síðast á svæðinu fyrir tíu árum og er hafsjór af fróðleik um Santorini og jarðfræðilegt umhverfi eyjarinnar sem sprakk nánast í loft upp í miklu eldgosi fyrir árþúsundum, einu af mörgum er þar hafa brotist upp um jarðskorpuna.
„Þarna var eitt stærsta gos á jörðinni einhvern tímann á bronsöld, fyrir um það bil 3.500 árum, og hafði mjög mikil á allt Miðjarðarhafið, sérstaklega á Egyptaland og líklega Grikkland og eyjarnar þar í kring,“ segir Haraldur sem vann á sínum tíma hvort tveggja á sjó og þurru landi við og á Santorini – meðal annars á rannsóknarskipi við hafsbotnsrannsóknirnar.
Lætur hann þess einnig getið að eyjan hafi myndað kjarnann í þjóðsögunni um neðansjávarborgina Atlantis, „Atlantis er Santorini, eyjan hvarf að miklu leyti og þá varð til þessi þjóðsögn“, segir eldfjallafræðingurinn og segir mikla öskju vera í eyjunni, tíu kílómetra að þvermáli og fulla af sjó.
„Eyjan er eins og hringur utan um öskjuna og í gosi á miðöldum komu upp tvær eyjar í öskjunni, en þarna eru líka miklar fornminjar sem grófust undir gosinu mikla, bæir sem nú er verið að grafa upp undan 20-30 metra lagi af vikri og ösku sem þeir fóru undir. Þannig að mikil menningarstarfsemi er tengd Santorini,“ segir Haraldur og nefnir eldfjallið Kolumbo sem er átta kílómetra norðaustur af Santorini.
„Það er neðansjávar, en grunnt á því, svona 20-30 metrar niður á gígbrúnina. Þar hef ég unnið með kafbáta og rannsóknartæki í gígnum og þar gaus árið 1650. Þá kom upp ský af ösku og vikri sem barst yfir Santorini og hafði mjög slæm áhrif og gerði mikinn usla á norðurhluta eyjarinnar,“ segir prófessorinn frá.
En hvað hefur verið að gerast þarna núna upp á síðkastið?
„Núna hefur verið mikil skjálftavirkni í grennd við Kolumbo og hún dreifist mest til norðausturs frá Santorini og í átt að eynni Amorgos. Deilt er um hvort þessi skjálftavirkni sé tengd Kolumbo eða misgengi miklu sem er á hafsbotninum og liggur rétt sunnan við Amorgos. Á þessu misgengi varð mjög stór jarðskjálfti árið 1956,“ svarar Haraldur.
Kveður hann stórskjálfta þennan hafa verið 7,5 stig. „Mjög fáir skjálftar ná slíkum styrk og þá myndaðist mikil flóðbylgja sem fór yfir Amorgos og var 20 metra há þegar hún skall á eynni. Ég held að sterkar líkur séu á því að þetta misgengi sé orðið virkt aftur, Amorgos-misgengið,“ segir hann og megi þá búast við áframhaldandi skjálftavirkni.
„Sumir kollegar mínir segja hins vegar að þetta sé ekki tengt misgenginu heldur eldfjallinu Kolumbo og hætta sé á að þessir skjálftar séu undanfarar eldgoss. Tíminn einn sker úr um það hverjir hafa rétt fyrir sér,“ segir Haraldur íbygginn og fær lokaspurningu.
Hvað felst í því að misgengi verði virkt?
„Jú, það fer á hreyfingu,“ svarar Haraldur og lýsir því hvernig þrýstingur eykst við misgengi þar sem tveir flekar ganga hvor á móti öðrum þar til brot verður í jarðskorpunni. „Þá kemur kippur þegar losnar um kraftinn og hús og fjöll hrynja, skriður falla og flóðbylgjur myndast og allur fjandinn. En þetta getur líka orsakað eldgos svo það er ýmislegt sem getur gerst þegar misgengi hreyfast,“ segir hann.
Vel geti verið að skjálftavirkninni við Santorini sé að ljúka, en nauðsynlegt sé þó að fylgjast vel með þróun mála. „Það er órói á Santorini núna, fólk er að flýja, þarna eru mjög brattar skriður, brúnin á öskjunni er eins og hnífsegg, þar er mjög bratt en þar hefur líka mikið verið byggt af því að það er fallegt að búa þar og mikið útsýni. Þarna hefur verið byggt út á ystu nöf og þau hús eru núna í hættu, þar er bara skriða niður í sjó,“ segir Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur og prófessor emeritus, að lokum um gang mála á grísku eynni Santorini.