Ekið á hjólreiðamann og gangandi vegfarenda

Tveir voru fluttir á sjúkrahús eftir umferðarslys í höfuðborginni í …
Tveir voru fluttir á sjúkrahús eftir umferðarslys í höfuðborginni í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekið var á hjólreiðamann á gatnamótum Reynisvatnsvegar og Víkurvegar í Grafarvogi rétt fyrir klukkan 8 í morgun.

Að sögn Árna Friðleifssonar, aðalvarðstjóra hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, barst lögreglunni tilkynning um slysið klukkan 7.50 og var hjólreiðamaðurinn fluttur með sjúkrabifreið á sjúkrahús með áverka á fæti en tildrög slyssins eru ókunn.

Tæpum stundarfjórðungi síðar barst lögreglunni tilkynning um að ekið hafi verið á gangandi vegfarenda á gatnamótum Sæbrautar og Kleppsmýrarvegar. Árni segir í samtali við mbl.is að lögreglan sé á staðnum og óskað hafi verið eftir sjúkrabifreið.

Árni segir að lögreglan hafi fengið tilkynningu um þriðja slysið skömmu síðar en eldri kona datt á gangstétt og var hún flutt á sjúkrahús með áverka á höfði.

„Það er mikil rigning, dimmt yfir og slæmt skyggni og við hvetjum fólk til að fara varlega,“ segir Árni Friðleifsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert