Fjögur í framboði til formanns VR

Efri röð: Flosi Eiríksson og Halla Gunnarsdóttir. Neðri röð: Bjarni …
Efri röð: Flosi Eiríksson og Halla Gunnarsdóttir. Neðri röð: Bjarni Þór Sigurðsson og Þorsteinn Skúli Sveinsson.

Fjórar tilkynningar liggja fyrir um framboð til embættis formanns VR, en frestur til að skila slíkum inn rennur út á hádegi í dag, 3. febrúar. Einnig er um að ræða framboð til sjö sæta í stjórn og þriggja til vara.

Fyrir helgina tilkynnti Flosi Eiríksson, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks og lengi félagsmaður í VR, um framboð. Það hafa einnig gert Bjarni Þór Sigurðsson, Þorsteinn Skúli Sveinsson og Halla Gunnarsdóttir. Hún hefur gegnt formennskunni frá því í haust þegar Ragnar Þór Ingólfsson vék úr embættinu þegar hann hóf afskipti af stjórnmálum og var kjörinn á Alþingi. Skrifleg meðmæli 50 VR-félaga þarf vegna formannsframboðs og 15 þarf að skila upp á einstaklingsframboðs til stjórnar og varastjórnar. Kjörtímabil formanns og aðalmanna í stjórn er nú fjögur ár í stað tveggja áður.

Í dag rennur einnig út frestur til að skila inn listaframboðum fyrir 41 sæti í trúnaðarráð VR. Svo listi vegna trúnaðarráðs sem borinn er fram gegn lista uppstillinganefndar VR sé löglega fram borinn þarf skrifleg meðmæli 300 VR-félaga sem og skriflegt samþykki frambjóðenda á listanum.

Í VR – sem eitt sinn hét Verzlunarmannafélag Reykjavíkur – eru í dag um 40 þúsund félagsmenn. Þarna er innanborðs fólk í ýmsum verslunar- og skrifstofustörfum með nokkuð há meðallaun, en í félaginu er líka ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði með störfum til dæmis í matvöruverslunum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert