Kristrún Frostadóttir segir að það sé enn verið að útfæra það hvernig hægt verður að tryggja strandveiðar í 48 daga. Hún segir að ekki hafi verið rætt sérstaklega hvort að Sigurjón Þórðarson, þingmaður Flokks fólksins, eigi að hafa aðkomu að frumvarpi um strandveiðar en hún gerir ráð fyrir því að hann meti sína hagsmuni eins og allir aðrir.
Þetta kemur fram í samtali Kristrún við mbl.is að ríkisstjórnarfundi loknum.
Það hefur verið talað um að tryggja strandveiðar í 48 daga. Hvernig verða þær tryggðar í 48 daga án þess að hafa ótakmarkað aðgengi?
„Þessi útfærsla er núna á borði atvinnuvegaráðherra og við verðum að bíða með að sjá það frumvarp þegar það kemur fram,“ segir Kristrún.
Hún segir að ný lög um strandveiðar, verði frumvarp um slíkt samþykkt, muni líklega ekki taka gildi fyrr en sumarið 2026.
Því þurfi að ráðast í ákveðnar afmarkaðar breytingar á lögum sem gætu tryggt strandveiðar í 48 daga nú í sumar.
„Það er verið að líta fyrst og fremst til þess að sá hluti kerfisins sem er byggðamiðaður verði nýttur við þetta. Það er útgangspunkturinn,“ segir Kristrún.
Sigurjón á strandveiðibát sem hann hefur gert út síðustu ár og sem verðandi formaður atvinnuveganefndar mun frumvarpið koma til kasta nefndarinnar sem hann leiðir.
Spurningar hafa vaknað um það hvort að hann sé hæfur til að koma að meðferð frumvarpsins sem formaður atvinnuveganefndar í ljósi þess að hagur hans gæti vænkast til muna ef strandveiðar verða stórefldar.
Mun Sigurjón Þórðarson eiga aðkomu að þessu frumvarpi þrátt fyrir sína hagsmuni?
„Það hefur ekkert verið rætt neitt sérstaklega en ég geri ráð fyrir því að allir aðilar muni gæta sinna hagsmuna og svo mun það bara koma í ljós hvernig málefnið þróast. En það mun margt annað koma fram í atvinnuveganefnd sem snýr ekki að strandveiðum. Ég geri bara ráð fyrir því að hann meti sína hagsmuni,“ segir Kristrún.
Þannig það er ekki útilokað að hann komi að gerð frumvarpsins?
„Þetta hefur bara ekki verið rætt neitt sérstaklega. Þannig það mun bara koma að því þegar að því kemur.“
Líkt og fram kom í Spursmálum á mbl.is á Sigurjón ásamt eiginkonu sinni fyrirtækið Sleppa ehf. sem gert hefur út bátinn Sigurlaugu SK 138 til strandveiða hin síðustu ár og hafa tekjur af útgerðinni numið tugum milljóna króna.
Í Spursmálum var Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra til viðtals og þar fullyrti hún að Sigurjón myndi ekki koma að afgreiðslu málsins vegna þeirra hagsmuna sem hann gætir af því að strandveiðar verði stórauknar.