Guðlaugur býður sig ekki fram til formanns

Guðlaugur Þór mun ekki bjóða sig fram á komandi landsfundi.
Guðlaugur Þór mun ekki bjóða sig fram á komandi landsfundi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, mun ekki bjóða sig fram til að gegna formennsku í Sjálfstæðisflokknum á komandi landsfundi flokksins. Fundurinn fer fram dag­ana 28. fe­brú­ar til 2. mars. Hann telur að það sé best að þeir sem hafi valdið „núningi“ innan flokks lengi haldi sig til hlés. 

Þetta kom fram í Kastljósi Ríkisútvarpsins hvar Guðlaugur var til viðtals. 

Guðlaugur Þór segir engan vafa vera á því að innanflokksátök hafi skaðað flokkinn. Innanflokksátökin hafa ekki síst verið á milli Guðlaugs Þórs og Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur formannsframbjóðanda á undanförnum árum í Reykjavík.

„Það er mín niðurstaða að það sé best fyrir okkur núna að við sem höfum verið að taka þátt í ákveðnum núningi lengi – það hefur sett mark sitt á flokkinn – að við höldum okkur til hlés. Ég ætla þess vegna að sýna það í verki, þó svo mig virkilega langi að taka þátt í þessari baráttu og treysti mér vel í það, að þá ætla ég ekki að bjóða mig fram sem formaður Sjálfstæðisflokksins á þessum landsfundi,“ sagði Guðlaugur.

„Ég er ekki að stíga til hliðar

Hann viðurkennir að hans fyrstu viðbrögð, eftir að Bjarni tilkynnti ákvörðun sína um að sækjast ekki eftir endurkjöri, hafi verið að bjóða sig fram. Hann hafi hins vegar á endanum ákveðið að taka ekki slaginn. 

Hann kveðst þó ekki vera á förum.

„Ég er ekki að stíga til hliðar, ég er nýkjörinn inn á þing og hlakka virkilega til þess að takast á við þau verkefni sem þar eru,“ segir Guðlaugar.

Telur að fleiri muni bjóða sig fram

Einn hef­ur til­kynnt um fram­boð í for­mennsku í Sjálf­stæðis­flokkn­um og það er þingmaður­inn Áslaug Arna Sig­ur­björns­dótt­ir. Guðrún Haf­steins­dótt­ir, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, hef­ur einnig verið sterk­lega orðuð við for­manns­fram­boð. 

Guðlaugur lýsir ekki yfir stuðningi við neinn frambjóðanda að svo stöddu en telur líklegt að fleiri framboð muni berast í öll forystuembætti. 

Guðlaugur bauð sig fram á síðasta landsfundi gegn Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, og fékk rétt rúmlega 40% atkvæða. 

Fréttin hefur verið uppfærð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert