Kannski þurfi Trump svigrúm til að lýsa yfir sigri

Gylfi Magnússon segir óhjákvæmilegt fyrir ESB að svara í sömu …
Gylfi Magnússon segir óhjákvæmilegt fyrir ESB að svara í sömu mynt ef Bandaríkin leggja tolla á vörur frá ríkjum sambandsins. Samsett mynd/Seðlabanki Íslands/AFP

Gylfi Magnússon, formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, pró­fess­or í hag­fræði við Há­skóla Íslands og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, segir að það sé því miður óhjákvæmilegt fyrir ESB að svara í sömu mynt ef Bandaríkin leggja tolla á vörur frá ríkjum sambandsins.

Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti því yfir í gær að lagðir yrðu tollar á innfluttar vörur frá ríkjum Evrópusambandsins.

Segist Gylfi myndu ráðleggja ESB að reyna að safna liði. Reyna að fá Mexíkó og Kanada og jafnvel fleiri lönd til að vera með samræmdar aðgerðir gegn ráðstöfunum Bandaríkjanna, sem myndi auka líkur á óvinsældum þeirra heima fyrir og að Bandaríkjaforseti myndi neyðast til að vinda ofan af þeim.

„Hann mun sjálfsagt gera það með því að lýsa yfir sigri þannig að kannski þarf að gefa honum eitthvað svigrúm til þess,“ segir Gylfi.

Lykilspurning hvort Trump muni eftir Íslandi

Hvaða áhrif hafa áform um tolla á vörur frá ríkjum Evrópusambandsins á Ísland?

„Það er mjög erfitt að meta það en lykilspurning í því samhengi er hvort Trump muni eftir Íslandi og setji það með í „Evrópupúllíuna“. Við erum náttúrulega ekki hluti af ESB og tollabandalaginu þannig að það er nú ekki sjálfgefið,“ segir Gylfi.

Segir hann í sjálfu sér engin málefnaleg rök fyrir því að setja tolla á Ísland því við séum með halla á viðskipti við Bandaríkin sem sé eitt af því sem Trump hafi horft til. Bandaríkjaforseti hefur einnig horft til eiturlyfjasmygls og flæði flóttamanna yfir landamæri Bandaríkjanna og segir Gylfi að sér vitanlega séu Íslendingar ekki neinir lykilþátttakendur í smygli á eiturlyfjum vestur um haf og að ekki sé mikið um að flóttamenn fari frá Íslandi til Bandaríkjanna.

„Þannig eru engin alvöru rök fyrir því að hafa okkur með en við getum auðvitað slæðst með því núverandi stjórnendur Bandaríkjanna eru ekkert sérstaklega góðir í landafræði eða rökfræði. Þannig að það getur bara vel verið að við myndum fara með fyrir slysni en það er auðvitað best fyrir okkur að allt saman falli í ljúfa löð og hann gleymi þessum hugmyndum en því miður virðist það ekki vera í kortunum,“ segir Gylfi.

Eiginlega fordæmalaust

Hann segir þetta augljóslega hið versta mál, hvernig sem á það sé litið. Það viti hins vegar enginn nákvæmlega hvernig muni spilast úr því. „Þetta er eiginlega fordæmalaust. Það þarf að fara aftur á fjórða áratug síðustu aldar til að sjá álíka fréttir en þær voru auðvitað við allt aðrar aðstæður í heimskreppu.“

Þá segir Gylfi ófyrirsjáanlegt hvernig úr spilast vegna þess að Bandaríkjaforseti sé slíkt ólíkindatól. „Það er ekki eins og þetta sé einhver þaulhugsuð stefna sem fylgir einhverri rökréttri áætlun. Þetta virðist bara byggt á einhverjum tilfinningum og skyndiákvörðunum sem er mjög erfitt að sjá fyrir.“

Að spila á pólitískar taugar

Að mati Gylfa er Trump að reyna á þanþol bandarísku stjórnarskrárinnar því svona mál eigi að vera að einhverju leyti á forræði löggjafans, þingsins, en ekki forsetans, „en hann lætur það nú ekki stoppa sig.“

Greinilegt er að Trump hefur einhvern stuðning sinna kjósenda við þessar ráðstafanir að sögn Gylfa sem segir að þannig sé verið að spila á einhverjar pólitískar taugar sem forsetinn sjái og ætli væntanlega að fá eitthvað fylgi út á það. Hann sé að endurtaka gamalkunnug stef um innflytjendur og smygl á sérstaklega eiturlyfjum, sem sé allt saman vinsælt í ákveðnum hópi.

Tollar geta valdið gríðarlegu tjóni

„Það er mjög erfitt að sjá að tollar leysi í reynd einhver vandamál. Þeir búa bara til veruleg vandamál og geta valdið gríðarlegu tjóni,“ segir Gylfi.

Hann segir misjafnt hversu miklu tjóni tollarnir geti valdið en þeir geti valdið mjög miklu tjóni í nágrannalöndum Bandaríkjanna, Mexíkó og Kanada, þar sem þeirra hagkerfi séu svo háð Bandaríkjunum.

„Þau eru auðvitað miklu minni en Bandaríkin en hafa treyst á mikla veltu í viðskiptum á milli þessara þriggja landa og byggt upp atvinnugreinar,“ segir Gylfi og tekur bílaframleiðslu sem dæmi. Hún hreinlega þoli ekki þessa tolla. Bílaframleiðsla í Kanada og að nokkru leyti í Bandaríkjunum byggi á því að íhlutir og hálftilbúnir bílar geti farið hindrunarlaust yfir landamærin án tolla og endi sem tilbúnir bílar sem seldir séu öðru hvoru megin við landamærin.

„Trump rústar því alveg með þessum tollum og ef þeir verða lengi verða væntanlega einhver gjaldþrot og slík vandamál út frá því.“

Kaupendur og seljendur verða báðir fyrir tjóni

Þegar á vöru er lagður tollur á formlega séð sá sem kaupir vöruna að borga tollinn, útskýrir Gylfi. „Trump talar nú eins og það sem sá sem selur sem borgar. Reyndin er auðvitað sú að þeir verða báðir fyrir tjóni.“

Segir Gylfi að í einhverjum tilfellum muni bandarískir framleiðendur geta fyllt í skarðið og farið að framleiða eitthvað sem nú er keypt frá Kanada og Mexíkó en það sé mjög takmarkað og í flestum tilfellum sé ekkert svigrúm til þess til skamms tíma. Segir hann að kannski sé hægt að gera einhverjar breytingar ef menn horfi til langs tíma.

Þetta ástand mun hafa hræðileg áhrif á framboð og hækka verð, segir Gylfi og þar með einnig  á störf og afkomu fyrirtækja.

„Það verður gríðarlegt efnahagslegt tjón ef þetta ástand varir lengi og jafnvel þó það verði stutt mun það hafa áhrif í lengri tíma því þeir sem hafa byggt sína lífsafkomu á því að treysta á frjáls viðskipti, t.d. yfir landamærin yfir til Bandaríkjanna frá Kanada og Mexíkó, hugsa sig væntanlega tvisvar um og reyna að stilla upp sínum framtíðarviðskiptum einhvern veginn öðruvísi.“

Allsherjar tollastríð myndi gera allt miklu verra

Inntur eftir verstu mögulegu útkomu segir Gylfi blasa við að hún sé að ástandið verði langvarandi og bæði með tollum sem Bandaríkjamenn leggja á ríki og gagnráðstöfunum annarra sem lama muni hluta milliríkjaverslunar í heiminum.

Það valdi miklu tjóni en hversu miklu fari eftir því hvert sé horft. „Þetta er langverst fyrir Kanada og Mexíkó því þau eru svo háð Bandaríkjunum. Þetta er minna mál fyrir Evrópu og Kína þó þetta skipti máli fyrir þau og svo auðvitað fjölmörg önnur lönd.“

Ef ástandið breiðist út og það verður eitthvert allsherjar tollastríð þá segir Gylfi að áhrifin muni vitanlega magnast og tengjast þá ekki einungis viðskiptum við Bandaríkin.

„Það verður nú að vona að það verði ekki, að það verði sem dæmi ekki tollastríð milli ESB og Kína líka sem myndi gera allt miklu verra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert