Landris nálgast nú einn metra

Horft til vesturs yfir Öskjuvatn og Víti. Landris mælist stöðugt …
Horft til vesturs yfir Öskjuvatn og Víti. Landris mælist stöðugt við eldstöðina og hefur gert síðan 2021. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lítil smáskjálftahrina mældist við Öskju snemma í gærmorgun. Skjálftarnir voru ekki stórir, eða á bilinu 0,2 til 1,6 að stærð.

Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, segir skjálftavirkni í Öskju vera með minnsta móti, í raun minni en búast hefði mátt við af eldstöðinni í norðri. Alls hafa mælst 77 skjálftar við Öskju það sem af er ári, en á síðasta ári mældust tæplega þúsund skjálftar við vatnið.

Á hefðbundnum stað

Skjálftahrinan smáa mældist við suðurbotna Öskjuvatns þar sem gjarnan verða jarðskjálftahrinur.

„Ég get ímyndað mér að þetta tengist jarðhitavirkni. Það er viðvarandi virkni á þessum slóðum og svona hrinur verða,“ segir Benedikt í samtali við Morgunblaðið.

„Það virðist, allavega eins og er, ekkert vera að breytast í kringum Öskju. Það er jarðhitavirkni þarna og það er alltaf skjálftavirkni tengd henni. Svo eru einhverjir skjálftar á meira dýpi líka,“ segir Benedikt.

Stöðugt landris mælist í og við Öskjuvatn og nemur það nú um allt 15 sentimetrum á einu ári. Í heild hefur land risið um 80 sentimetra frá 2021 og nálgast því óðfluga einn metra.

Land tók að rísa í Öskju í ágúst 2021 og hefur það stöðugt risið síðan þá.

Kröftug en skammlíf jarðskjálftahrina varð í Bárðarbungu snemma í janúar. Aðspurður hvort sú skjálftahrina hafi haft áhrif í og við Öskju segir Benedikt svo ekki vera. Það sé sjaldan sem virkni við þá eldstöð hafi áhrif í Öskju.

„Þetta var hrina sem við höfðum áhyggjur af að gerði eitthvað meira, en það varð ekki,“ segir Benedikt að lokum.

Kort/mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert