Lítil smáskjálftahrina mældist við Öskju snemma í gærmorgun. Skjálftarnir voru ekki stórir, eða á bilinu 0,2 til 1,6 að stærð.
Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, segir skjálftavirkni í Öskju vera með minnsta móti, í raun minni en búast hefði mátt við af eldstöðinni í norðri. Alls hafa mælst 77 skjálftar við Öskju það sem af er ári, en á síðasta ári mældust tæplega þúsund skjálftar við vatnið.
Skjálftahrinan smáa mældist við suðurbotna Öskjuvatns þar sem gjarnan verða jarðskjálftahrinur.
„Ég get ímyndað mér að þetta tengist jarðhitavirkni. Það er viðvarandi virkni á þessum slóðum og svona hrinur verða,“ segir Benedikt í samtali við Morgunblaðið.
„Það virðist, allavega eins og er, ekkert vera að breytast í kringum Öskju. Það er jarðhitavirkni þarna og það er alltaf skjálftavirkni tengd henni. Svo eru einhverjir skjálftar á meira dýpi líka,“ segir Benedikt.
Stöðugt landris mælist í og við Öskjuvatn og nemur það nú um allt 15 sentimetrum á einu ári. Í heild hefur land risið um 80 sentimetra frá 2021 og nálgast því óðfluga einn metra.
Land tók að rísa í Öskju í ágúst 2021 og hefur það stöðugt risið síðan þá.
Kröftug en skammlíf jarðskjálftahrina varð í Bárðarbungu snemma í janúar. Aðspurður hvort sú skjálftahrina hafi haft áhrif í og við Öskju segir Benedikt svo ekki vera. Það sé sjaldan sem virkni við þá eldstöð hafi áhrif í Öskju.
„Þetta var hrina sem við höfðum áhyggjur af að gerði eitthvað meira, en það varð ekki,“ segir Benedikt að lokum.