„Leiðinleg og erfið staða“

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands rannsakar nú veikindi sem komu upp eftir þorrablót, …
Heilbrigðiseftirlit Suðurlands rannsakar nú veikindi sem komu upp eftir þorrablót, annars vegar í Grímsnesi og hins vegar í Þorlákshöfn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er afskaplega leiðinleg og erfið staða,“ segir Birgir Leó Ólafsson, formaður þorrablótsnefndar ungmennafélagsins Hvatar í Grímsnes- og Grafningshreppi, um veikindin sem komu upp eftir þorrablót nefndarinnar á föstudag.

Aðspurður segist hann ekki hafa verið í frekara sambandi við Veisluþjónustu Suðurlands sem sá um veitingarnar fyrir blótið.

Óbreytt staða

Greint hefur verið frá að veikindin séu þess eðlis að um matarborna sýkingu sé að ræða en það hefur þó ekki verið staðfest.

Þá veiktust einnig tugir gesta á öðru þorrablóti í Þorlákshöfn sem haldið var á laugardagskvöld þar sem Veisluþjónusta Suðurlands sá sömuleiðis um veitingarnar.

„Það er óbreytt staða. Það er búið að tilkynna þetta til Heilbrigðiseftirlits Suðurlands. Það er komið með boltann,“ segir Birgir í samtali við mbl.is.

Tryggja að sýking hafi ekki komið upp í mötuneytinu

Segir hann Heilbrigðiseftirlitið hafa sett sig í samband við mötuneyti félagsheimilisins Borgar, þar sem þorrablótið var haldið á föstudaginn, þar sem farið var yfir hvernig væri staðið að þrifum.

„Það er svona verið að tryggja að það hafi ekki orðið sýking í því mötuneyti.“

Segir Birgir að það eina sem nefndin geti gert núna sé að liðka fyrir og hjálpa til við rannsókn málsins. Að öðru leyti sé málið í höndum Heilbrigðiseftirlits Suðurlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert