Atvinnuvegaráðherra segir rétt að anda með nefinu meðan kannað er hvort finna megi starfsemi Kornax nýjan stað. Að óbreyttu verða varabirgðir af hveiti nær engar í landinu, þegar starfsemin leggst af.
Þetta kemur fram í nýjasta þætti Spursmála en tilefnið er að heilbrigðiseftirlit Vesturlands hefur synjað fyrirtækinu Kornax um leyfi til þess að reisa nýja hveitimölunarverksmiðju á Grundartanga en fyrirtækið hugsaði flytja starfsemi sína þangað á lóð þar sem umsvif þess eru mikil nú þegar. Faxaflóahafnir hafa sagt upp lóðaleigusamningi fyrirtækisins í Sundahöfn þar sem núverandi verksmiðja er starfrækt.
Gunnar Tryggvason, hafnarstjóri Faxaflóahafna hefur upplýst að núverandi verksmiðja Kornax verði rifin og að ekkert annað verði reist á lóðinni. Ráðist sé í þessa framkvæmd af öryggisástæðum.
Helgi Eyleifur Þorvaldsson, landbúnaðarfræðingur hefur bent á það í samtali við Morgunblaðið að með umsvifum Kornax séu tryggðar 3-4 mánaða birgðir af hveiti í landinu á hverjum tíma. Það er langt undir þeim mörkum sem önnur ríki á Norðurlöndum hafa til viðmiðunar þar sem tryggðar eru birgðir til 6-12 mánaða.
Með brotthvarfi Kornax sé ekki hægt að tryggja birgðir til lengri tíma en eins mánaðar en það skýrist meðal annars af því að hveiti í sekkjum hefur mun skemmri endingartíma en þegar það er geymt í tönkum.
Af orðum ráðherra má dæma að það sé undir Kornax komið hvort nægilegar hveitibirgðir séu í landinu á hverjum tíma eður ei.
Orðaskiptin um þetta mál má sjá í spilaranum hér að ofan.
Umræðan um matvælabirgðir hefur gerst áleitnari að undanförnu í ljósi þeirra væringa sem eiga sér stað milli Vesturlanda og Rússlands. Komi til stríðsátaka geta þjóðir þurft að stóla á varabirgðir matvæla, einkum ef flutningaleiðir lokast um lengri eða skemmri tíma.
Bent var á í fréttaskýringu í Morgunblaðinu þann 25. janúar síðastliðinn að ónógar birgðir hveitis og korns á Íslandi gengu í berhögg við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, meðal annars þriðju grein Atlantshafssáttmálans sem landið undirgekkst við stofnun samtakanna árið 1949. Þar er kveðið á um að hverju þjóðríki sé skylt að tryggja viðnámsgetu sína, meðal annars í tengslum við vopnaðar árásir.
Þá er einnig bent á að í skýrslu starfshóps um neyðarbirgðir, sem kom út árið 2022 segir: „Fæðuöryggi er ein af forsendum þess að hægt sé að tryggja lífsafkomu þjóðar á hættustundu.“ Þar er einnig ítrekað að ekki eru í gildi nein stjórnvaldsfyrirmæli sem kveða á um lágmarksbirgðir matvæla eða aðfanga til matvælaframleiðslu í landinu.
Nú stefnir allt í að Kornax muni ekki koma upp nýrri starfsemi í stað þeirrar sem hverfur á braut í Sundabraut en ráðherra telur rétt að bíða og sjá hvort ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins verði hnekkt eða hvort Kornax geti fundið aðra staðsetningu undir starfsemi sína. Fátt bendir til þess að fyrirtækið sé á þeim buxunum.
Viðtalið við Hönnu Katrínu Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan: