Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, segist hafa borið von í brjósti um að hægt væri að afstýra verkfallsaðgerðum þangað til klukkan tíu í gærkvöldi.
Hann segir samninganefnd KÍ ekki upplifa heilindi í samningsvilja hins opinbera.
Kennarasambandið fundaði með forsætisráðherra og formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga í síðustu viku og taldi forysta KÍ viðræðurnar vera í góðum farvegi í kjölfarið. Annar tónn var þó í samninganefndum, sem starfa í umboði ríkis og sveitarfélaga, um helgina, að sögn Magnúsar.
„Svo fer í gang einhver pólitískur hráskinnaleikur á laugardag og sunnudag sem endar með því að allt í einu sáum við að það fylgdi ekki hugur máli þeim setningum sem að forsætisráðherra og formaður sambandsins höfðu komið fram með og fulltrúar þeirra við samningaborðið voru ekki tilbúnir að ganga að þessum leiðum sem við vorum að benda á. Þá var ekki lengra komist í bili.“
Ríkissáttasemjari lagði fram innanhússtillögu í síðustu viku. Samband íslenskra sveitarfélaga samþykkti tillöguna. Kennarar vildu gera breytingar á ákveðnum ákvæðum.
„Tillagan snerti marga ágæta þætti. Við töldum okkur vera komin á ákveðinn stað með virðismatsvegferð, önnur kjör umræðunnar, hluti sem hafa verið í umræðunni síðustu vikur og við höfum verið að skoða saman,“ segir Magnús og heldur áfram:
„En fyrst og síðast er okkar meginmarkmið að kennarar nálgist samanburðahópa í launum á almennum markaði, og við vorum alltaf skýr með það. Þegar kom að okkur að svara á laugardeginum þá bentum við á að við teldum þær launahækkanir sem ættu að fylgja áður en við færum af stað í virðismatsvegferðina einfaldlega ekki vera nægilegar til þess að við gætum haldið okkur við það markmið. Fyrst og síðast var það það.“
Viðræðum lauk seint í gærkvöldi og lögðu kennarar niður störf í fjórtán leikskólum og sjö grunnskólum í dag.
„Við gerum okkur fulla grein fyrir því að þær snerta mörg heimili. Þetta er neyðarbrauð og það er ömurlegt að vera enn þá á þessum stað fjórum mánuðum eftir að við hófum undirbúning aðgerða. Á árinu 2025 séum við að fara hér í umfangsmikil verkföll og frekari aðgerðir í kennarastétt sem er undirborguð í samfélaginu.