Sigurður G. Guðjónsson, verjandi Sverris Þórs Gunnarssonar, segir dóm yfir Sverri og viðskiptafélaga hans vera vonbrigði og telur líklegt að dóminum verði áfrýjað.
Fyrr í dag voru Sverrir, sem kenndur hefur verið við rafrettusjoppuna Drekann, ásamt Snorra Guðmundssyni, sem kenndur hefur verið í rafrettusjoppuna Póló, dæmdir í Héraðsdómi Reykjaness í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 1,1 milljarð í sekt í stóra sígarettusmyglmálinu svokallaða.
Voru þeir fundnir sekir um stórfelld tollalagabrot og að hafa komið sér hjá því að hafa greitt 740 milljónir í tolla og skatta vegna innflutnings á sígarettum og tóbaki á árunum 2015 til 2018. Voru vörurnar skráðar sem prótín eða pappír í tollskýrslum.
Um er að ræða í heildina 120.075 karton af sígarettum, eða 1.200.750 sígarettupakka og 5.400 karton af reyktóbaki, en síðasta sendingin af níu sem dæmt var fyrir var gerð upptæk af tollyfirvöldum eftir að í ljós kom að hún innihélt ekki það sem kom fram á tollskýrslum.
„Mér þykir mjög trúlegt að þessu verði áfrýjað,“ sagði Sigurður við mbl.is strax eftir að dómurinn var fallinn.
„Það eru vonbrigði í fyrsta lagi að það virðist vera tekið gott og gilt að tóbaksgjaldið hafi verið réttilega lagt á og að það grundvalli þessa háu sektarefsingu og upptökukröfur,“ bætir hann við.
Ætluðu verjendur mannanna tveggja að skoða dóminn betur áður en þeir myndu tjá sig nánar um hann.