„Skömm að því“

„Þetta kemur einstaklega illa við okkur núna á þessum tímapunkti því næstum allir í okkar baklandi eru í vinnu og við erum að fara að hefja tökur á bíómynd.“

Þetta segir Helga Arnardóttir, kvikmyndagerðar- og fjölmiðlamaður, í samtali við mbl.is en sonur Helgu og Braga Þórs Hinrikssonar, eiginmanns hennar og leikstjóra, fór ekki í leikskólann í morgun vegna verkfalls.

Verkföll eru skollin á meðal félagsmanna Félags leikskólakennara, Félags grunnskólakennara og Skólastjórafélags Íslands, sem starfa í fjórtán leikskólum og sjö grunnskólum víða um landið.

Helga segir samúð sína alla vera með kennurum. Mikil skömm sé fyrir sveitarfélögin að borga ekki mikilvægustu stéttum landsins mannsæmandi laun og bjóða þeim ekki mannsæmandi skilyrði.

„Þessar stéttir sitja eftir. Af hverju sitja þessar stéttir eftir?“ spyr Helga. Hún segir sárt fyrir mikilvægustu stéttir landsins að þurfa að fara þessa leið. „Maður verður bara að taka þann pólinn í hæðina. Það er skömm að því að þessar stéttir hafi setið eftir svona lengi.

Þetta eru eftir allt saman mikilvægustu stéttir landsins, svo við getum haldið áfram að vinna. Maður er klárlega með þessum stéttum í liði og sér það svart á hvítu á fyrsta degi að þetta eru mikilvægustu stéttir landsins hvort sem það er skóli eða leikskóli,“ segir hún.

Óttast að stefni í einhverja lengd

Eins og svo margir fylgdist Helga með framvindu kjaraviðræðna um helgina. Segir hún að hjá viðsemjendum mætist greinilega stálin stinn og að augljóslega hafi enginn tekið vel í sáttamiðlunartillögu ríkissáttasemjara.

„Ég óttast að þetta stefni í einhverja lengd því mér finnst þannig tónn í samningaaðilum.

Hann býst ekki við því að boða menn á fundi strax en ber skylda til þess á tveggja vikna fresti. Þetta er bara... já... við erum bara á fyrsta degi hérna að kubba,“ segir hún og getur ekki annað en hlegið að fáránleikanum í veruleikanum.

Áhyggjur af rútínunni

Helga hefur áhyggjur af börnum sem missa rútínu í verkfalli. Það verði aukin skjátími og óregla á mataræði til dæmis. Það hafa ekki allir tök á því að vera heima og elda hádegismat.

„Sem betur fer er ég í þannig vinnu að ég get unnið heima og tekið símtöl og svona svo þetta er ekki alsæmt og sem betur fer er ég ekki heilbrigðisstarfsmaður eða starfsmaður sem þarf að mæta eitthvert. Ég er sjálfstætt starfandi en það er bara örlítið út af bíómynd sem við erum að fara að skjóta.“

Helga er fegin því að vera með fimm ára dreng og segir að hann muni sennilega bara sitja á tökustað með legokubba eða verja tímanum í skjátíma.

„Ég er bara að búa mig undir að þetta verði sex vikna atriði, mér finnst þannig tónn í mönnum. Ég kannski verð bara að leita að fólki sem er á milli starfa eða eitthvað svoleiðis,“ segir Helga.

Hún segir meiri fjölda fólks undir nú og kannski verði pressan meiri á fjölmiðla að fjalla um málið. „Þetta er gert til að vekja viðbrögð og að við látum í okkur heyra.“

Helga segir ótrúlega óheppilegt að verkfall sé skollið á en ítrekar að hún sé með kennurum í liði og segir skömm að því að þeir sitji eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert