Þetta gat „mamman úr Garðabænum“

Vigdís Gunnarsdóttir með syni sínum, Jóni Kristjáni Edwinssyni.
Vigdís Gunnarsdóttir með syni sínum, Jóni Kristjáni Edwinssyni. Ljósmynd/Aðsend

Undirskriftalisti Vigdísar Gunnarsdóttur, móður fjögurra ára drengs með einhverfu, hefur náð rúmlega sex þúsund undirskriftum. Undirskriftalistinn skorar á umboðsmann Alþingis að taka rammasamning talmeinafræðinga og Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) til frumkvæðisathugunar.

Vigdís segist hafa fundið fyrir miklum stuðningi í samfélaginu og hyggst nú senda bréf til þriggja ráðherra í vikunni þar sem krafist verður að talmeinafræðingar fái greitt fyrir akstur og ferðatíma svo þeir geti veitt þjónustu í nærumhverfi.

mbl.is hefur áður fjallað um mál Vigdísar. Sonur hennar talar ekki og var á biðlistum til að fá pláss hjá talmeinafræðingi í tvö og hálft ár. Loks þegar komið var að honum kom í ljós að rammasamningur milli SÍ og talmeinafræðinga gerir ráð fyrir að þjónustan sé veitt á talmeinastofu.

Freistandi að ná 6.000 undirskriftum

Vegna einhverfu sonar Vigdísar á hann erfitt með nýja staði og nýtt fólk og var vonast eftir því að hann gæti fengið þjónustuna á leikskólanum sínum en það var ekki í boði.

Undirskriftalisti Vigdísar átti að klárast á miðnætti í gær en sökum þess hve margir voru enn að deila honum á samfélagsmiðlum ákvað hún að halda honum opnum aðeins lengur.

„Svo fannst mér líka svo ógeðslega freistandi að ná 6.000 og mig vantar tuttugu manns í það,“ sagði Vigdís í samtali við mbl.is fyrr í dag, en takmarkið náðist svo nú í kvöld.

Bréf sent til þriggja ráðherra

Aðspurð segist hún hafa fundið fyrir gífurlega miklum stuðning síðan hún veitti mbl.is viðtal en í kjölfar þess viðtals fór hún einnig í Ísland í dag og var þá greint frá málinu á Vísi sem Vigdís segir einnig hafa haft mikil áhrif á undirskriftasöfnunina.

„Ég er svo með lögfræðing núna sem ætlar að taka undirskriftalistann og hann er að skrifa bréf núna til Ölmu Möller [Heilbrigðisráðherra], Ingu Sæland [Félags- og húsnæðismálaráðherra] og Ásthildar Lóu [Mennta- og barnamálaráðherra],“ segir Vigdís en hún vonast til að bréfið verði sent í vikunni.

Í bréfinu er þess krafist að ráðherrarnir breyti því í rammasamningnum að talmeinafræðingar fái greitt fyrir ferðatíma.

Ekki gert ráð fyrir greiðslu ferðakostnaðar

Eftir umfjöllun mbl.is í janúar skrifaði formaður Félags talmeinafræðinga á Íslandi opið bréf í Morgunblaðið þar sem einmitt var bent á að ástæða þess að talmeinafræðingar veittu ekki þjónustu í nærumhverfi væri vegna þess að rammasamningur þeirra við sjúkratryggingar gerir m.a. ekki ráð fyrir greiðslu ferðakostnaðar.

Svar við umfjöllun um takmarkað aðgengi

Samhliða því að bréf verður sent til ráðherranna þriggja mun Vigdís einnig senda undirskriftalistann til umboðsmanns Alþingis ásamt áskorun um að taka málið upp.

„Þá er bara spurning hvernig viðbrögðin verða.“

Blaðamaður bendir henni á að með rúmlega sex þúsund undirskriftir megi reikna með sterkum viðbrögðum þar sem erfitt verði að hunsa málið og tekur Vigdís undir þau orð.

„Já, já, mamman úr Garðabænum gat.“

Mikil reiði í öllum

Hún segist þó finna fyrir hvað fólk sé orðið þreytt á kerfinu.

„Það er bara svo mikil reiði í öllum sem eru bæði að sinna þessum börnum og fjölskyldunum.“

Vonandi á leiðinni í pólitíska vinnslu

Þá segir hún reiðina ekki einungis vera bundna við fjölskyldur þar sem eru einhverf börn heldur einfaldlega alls staðar.

„Bara allir þessir biðlistar, þegar kemur að Greiningarstöðinni og Geðheilsumiðstöðinni og aðgengi að sálfræðingum og talmeinafræðingum,“ segir Vigdís.

Hvað er snemmtæk íhlutun og farsæld barna þegar börn eru bara að bíða?,“ bætir hún við

Þá segist Vigdís ekki vita hvort hún muni halda baráttu sinni áfram þegar listinn hefur verið sendur ásamt bréfinu.

„En vonandi er þessi angi allavega á leiðinni í einhverja pólitíska vinnslu núna.“

Hér má finna undirskriftalistann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert