Tugir gesta á öðru þorrablóti veikjast

Um 160 gestir sóttu þorrablótið í Þorlákshöfn.
Um 160 gestir sóttu þorrablótið í Þorlákshöfn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Veikindi hafa komið upp meðal gesta sem sóttu þorrablót í Þorlákshöfn á laugardagskvöld og eru þau þess eðlis að grunur er um matarborna sýkingu, líkt og á þorrablóti ungmennafélagsins Hvatar í Grímsnes- og Grafningshreppi sem haldið var á föstudag. 

Veisluþjónusta Suðurlands sá um veitingar á báðum stöðum, en vert er að taka fram að ekki hefur verið staðfest að veikindin megi rekja til veitinganna sem boðið var upp á.

Freyja Mjöll Magnúsdóttir, sem var í þorrablótsnefndinni, telur að um 20 gestir hafi nú þegar tilkynnt um veikindi, en um 160 gestir sóttu þorrablótið, sem haldið var í Versölum í Þorlákshöfn. Þá hefur mbl.is borist fjöldi ábendinga um veikindi eftir blótið.

Freyja segir að heilbrigðiseftirlitið hafi verið upplýst um málið.

Málið tekið mjög alvarlega

Greint var frá því á mbl.is í gær að tugir gesta sem sóttu þorrablót Hvatar í félagsheimilinu Borg í Grímsnesi á föstudag hefðu veikst eftir blótið.

Birgir Leó Ólafsson, formaður þorrablótsnefndarinnar, sagði í samtali við mbl.is að fólki hefði verið bent á að skrá hvert tilfelli inni vefsvæðinu Ísland.is þar sem hægt er að koma tilkynningu til sóttvarnalæknis um matarbornar sýkingar.

Þorrablótnefnd Þorlákshafnar hefur gert það sama.

Í tilkynningu frá nefndinni segir að málið sé tekið mjög alvarlega og að þegar sé farið að skoða orsakir í samstarfi við viðeigandi aðila.

Frétti af veikindum á blótinu sjálfu

Árni Bergþór Hafdal Bjarnason, eigandi Veisluþjónustu Suðurlands, sagði í samtali við mbl.is í gær að fyrirtækið hefði góða og skráða verkferla og því væri auðvelt að rekja það ef mistök hefðu orðið í eldun og framreiðslu.

Hann sagðist hafa frétt af veikindum gestanna á blóti Hvatar þegar hann var að bera fram mat á blótinu í Þorlákshöfn á laugardag. Hann kvaðst hafa upplýst þá sem stóðu að blótinu um málið.

Þá benti Árni á að magapest væri að ganga og að enn lægi ekkert fyrir um það af hvaða tagi veikindin væru. Hann sagði að beðið væri eftir niðurstöðum úr sýnum.

Maturinn að miklu leyti sá sami

„Þetta verður bara krufið til mergjar og ef það er ein­hver brest­ur hjá okk­ur, þá viður­kenn­um við það þegar að því kem­ur og lög­um þá verk­ferla,“ sagði Árni í samtali við mbl.is í gær.

Þá sagði hann að maturinn á þorrablóti Þorlákshafnar hefði að miklu leyti verið sá sami og á þorrablóti Hvatar, og undirbúinn með sama hætti.

Því væri um að ræða ágætt sam­an­b­urðarpróf á það hvort eitt­hvað hefði verið að matn­um. Í gær hafði hann ekki fengið neinar tilkynningar um veikindi.

„Eina vopnið gegn svona er al­gjört gagn­sæi og ef það er raun­veru­lega ein­hver brest­ur hjá okk­ur þá mun heil­brigðis­eft­ir­litið kom­ast að því og við mun­um laga verk­ferla í sam­ræmi við það,“ sagði Árni.

Veistu meira? Sendu okkur ábendingu á frettir@mbl.is 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert