„Hann vissi af þessu þegar þetta var borið ofan í okkur og hann lét okkur ekki vita af því,“ segir Freyja Mjöll Magnúsdóttir, nefndarmaður í þorrablótsnefndinni í Þorlákshöfn, um veitingamanninn Árna Bergþór Hafdal Bjarnason, sem sá um veitingarnar á blótinu.
Greint hefur verið frá að tugir fólks hafi veikst eftir þorrablót í Grímsnesi á föstudag og í Þorlákshöfn á laugardag, en Árni er eigandi Veisluþjónustu Suðurlands, sem sá um veitingarnar á báðum blótum.
Rétt er þó að geta þess að ekki hefur verið staðfest að um matarborna sýkingu sé að ræða.
Í samtali við mbl.is sagðist Árni hafa upplýst nefndarmenn blótsins í Þorlákshöfn um leið og hann frétti af veikindunum sem upp höfðu komið í Grímsnesi en Freyja segir það ekki vera rétt.
Hún segir Árna hafa átt samtal við veislustjóra kvöldsins, sem situr einnig í nefndinni, sem gaf sig á tal við Árna að fyrra bragði undir lok kvölds þegar verið var að pakka saman.
Þar hafi Árni rætt um að upp hafi komið matarsýking á Borg í Grímsnesi deginum áður, en ekki tekið fram að hann sjálfur hafi séð um veitingarnar á staðnum. Því hafi veislustjórinn tekið samtalinu sem svo að hann væri að viðra almennar áhyggjur af matarsýkingu út frá þjóðfélagsumræðu.
„Þetta var það óljóst spjall að okkar maður í nefndinni tekur því þannig að það sé bara eins og hann hafi áhyggjur af smiti yfir höfuð, en ekki hjá sér,“ segir Freyja.
Hún segir Árna einnig hafa haft samband í gær, degi eftir veisluna, þar sem hann hafi spurt hvort ánægja hafi verið með matinn og tekið fram að nefndin ætti að láta vita ef eitthvað kæmi upp.
Aftur hafi hann hins vegar ekki tekið fram að hann hafi séð um matinn í Grímsnesi þar sem veikindin komu upp.
Segist Freyja ekki hafa komist að tengingunni fyrr en klukkan 18 í gærkvöldi þegar hún átti samtal við konu sem var á þorrablótinu í Grímsnesi.
Hún hafi í kjölfarið sent Árna tölvupóst til að láta vita hver staðan væri og segir hún hann hafa svarað í morgun þar sem hann segist ekki hafa vitað af veikindunum í Grímsnesi fyrr en klukkan 1 um nóttina aðfaranótt sunnudags, eftir þorrablótið í Þorlákshöfn.
Segist Freyja hins vegar hafa haft samband við Birgi Leó Ólafsson, formann þorrablótsnefndarinnar í Grímsnesi, og á hann að hafa sent Árna tölvupóst rétt eftir klukkan 18 á laugardag og svo hringt í hann rétt fyrir klukkan 20, þar sem látið var vita af veikindum.
„Það er áður en við borðum. Þannig hann vissi af þessu í Borg í Grímsnesi áður en við borðuðum matinn.“
Hún segist skilja að um erfiða stöðu sé að ræða sem Árni hafi verið settur í en það breyti því ekki að hann hafi vitað af veikindunum í Grímsnesi áður gestir neyttu matarins í Þorlákshöfn.
„Hann veit alveg hver ég er og vissi að ég væri í nefnd og hann ræddi aldrei neitt um þetta við mig eða aðra nema bara [nefndarmanninn] og það var af því að hann gaf sig á tali við hann að fyrra bragði.“
Hún segir að það eina sem stingi sig í málinu sé að fólk í Þorlákshöfn hafi haldið að nefndin hafi haldið veikindum leyndum frá íbúum.
„Sem við gerðum alls ekki. Við upplýstum alla um leið og við vissum að þetta væri sama tilfellið og vorum farin að heyra af veikindum.“
Þá hefði hún viljað sjá Árna kalla nefndina saman og upplýsa hana um stöðuna svo að hún gæti verið undir það búin. Segist Freyja sjálf hafa þurft að skoða málið í gærkvöldi og hringdi m.a. í Birgi Leó í Grímsnesi sem aðstoðaði hana t.a.m. með verkferla.
„Ég á honum mikið að þakka.“
Hún segir málið nú í höndum Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og hvetur hún þá sem hafa orðið veikir eftir blótið til að tilkynna veikindi sín.