Neytendastofa hefur tekið ákvörðun í máli fimm einstaklinga þar sem stofnunin telur að færslur sem þeir birtu á samfélagsmiðlum hafi verið auglýsingar án þess að það kæmi nægilega skýrt fram.
Fram kemur á vef Neytendastofu að þetta hafi verið hluti af samræmdri skoðun neytendayfirvalda í Evrópu á því hvort rétt væri að staðið væri að merkingum auglýsinga á samfélagsmiðlum.
Í ákvörðunum stofnunarinnar segir að fólkið hafi brotið gegn lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu með villandi viðskiptaháttum. Í málunum er öllum fimm bannað að birta auglýsingar með þessum hætti.
Í öllum málunum er um að ræða auglýsingar á samfélagsmiðlinum Instagram og í einu máli einnig á TikTok. Um er að ræða þau Gunnar Frey Gunnarsson, Sigurjón Erni Sturluson, Kyana Sue Powers, Mari Järsk og Matteo Meucci.
Í öllum málunum er það mat Neytendastofu að upplýsingar um viðskiptalegan tilgang færslu á samfélagsmiðlum teljist almennt skipta máli fyrir neytendur í skilningi 2. mgr. 9. gr. laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.
Ákvörðunarorð Neytendastofu í málunum fimm eru öll orðuð á sama veg, þ.e. að viðkomandi hafi með því að birta auglýsingar í formi samfélagsmiðlafærslna á Instagram, og á TikTok í einu máli, án þess að fram komi með skýrum hætti að um auglýsingar sé að ræða og með villandi viðskiptaháttum, brotið gegn 1. mgr. 6. gr., 1. mgr. 8. gr. og 2. mgr. 9. gr., sbr. 5. gr. laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.
Er því öllum bannað að birta auglýsingar með framangreindum hætti. Verði ekki farið að banninu má búast við að tekin verði ákvörðun um sekt á grundvelli IX. kafla laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.