Bílstjórinn dæmdur fyrir að verða Ibrahim að bana

Ekið var á Ibrahim við Ásvelli 30. október 2023.
Ekið var á Ibrahim við Ásvelli 30. október 2023. Ljósmynd/Eva

Karlmaður á sjötugsaldri hefur verið dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir manndráp af gáleysi með því að hafa ekið steypubíl á Ibrahim Shah, átta ára dreng, við Ásvelli í Hafnarfirði í október 2023. Jafnframt var manninum gert að greiða foreldrum drengsins fjórar milljónir hvoru.

Er niðurstaða dómsins að hann hafi sýnt af sér „stórfellt gáleysi“ sem leiddi til þess að hann ók á drenginn með þeim afleiðingum að hann lést og að engu hafi skipt þótt varúðarmerkingum hafi mögulega verið ábótavant.

Ók á Ibrahim við vinnusvæði á Ásvöllum

Maður­inn ók á Ibra­him þegar hann tók hægri beygju á gatna­mót­um í átt að vinnusvæði á Ásvöll­um.

Í dóminum kemur fram að á upptöku megi sjá manninn stöðva bílinn eftir að hafa bakkað honum á götunni við hlið gangstígsins sem drengurinn hjólar eftir. Þegar bifreiðinni er ekið aftur af stað hjólar drengurinn á gangstígnum við hægri hlið bifreiðarinnar. Bæði bifreiðin og drengurinn eiga þá skammt eftir að innkeyrslunni að bifreiðastæðinu við Ásvelli 2. 

Bifreiðinni er síðan beygt inn innkeyrsluna og ekið viðstöðulaust áfram án þess að ökumaðurinn gefi stefnumerki, en í sama mund hjólar drengurinn út á innkeyrsluna og beygir til hægri eins og hann sé að reyna að komast hjá því að bifreiðin lendi á honum, segir í dóminum.

Hafi jafnvel „týnt“ heilli bifreið á hægri hliðinni

Þrátt fyrir það lendir bifreiðin á hjóli drengsins og honum með þeim afleiðingum að drengurinn fellur í götuna og bifreiðinni er ekið yfir hann og lætur drengurinn lífið samstundis. Er þessi niðurstaða í samræmi við skýrslu lögreglunnar og rannsóknargögn málsins að því er segir í niðurstöðum dómsins.

Maðurinn hafði sagt fyrir dóminum að takmarkað útsýni væri úr bifreiðinni til hægri þar sem drengurinn hafði áður sést í spegli og að hann hafi jafnvel „týnt“ heilli bifreið á þeirri hlið. Segir í dóminum að þetta hafi átt að vera ástæða fyrir ökumanninn til að gæta sérstaklega að umferð hægra megin áður en hann beygði inn á bifreiðastæðið þar sem göngustígur var beggja megin við innkeyrsluna.

Hefði átt að sjá drenginn

„Ákærði hefði með þeirri aðgæslu sem honum bar að sýna getað séð drenginn áður en bifreiðin lenti á honum,“ segir í dóminum. Tekið er fram að sérstök skylda hvíli á ökumönnum stórra bifreiða eins og þessarar. 

Er það því niðurstaða dómsins að maðurinn hafi ekið ógætilega og ekki gengið úr skugga um að hann gæti ekið inn á bifreiðastæðið án hættu fyrir gangandi eða hjólandi umferð.

„Hefði ákærði gætt betur að slíkri umferð og ekið vörubifreiðinni í samræmi við þau ákvæði umferðarlaga sem rakin eru hér að framan [...] hefði hann átt að sjá hinn látna þar sem hann hjólaði eftir stígnum og ætlaði yfir akbrautina,“ segir þar jafnframt.

Sýndi af sér „stórfellt gáleysi 

Er niðurstaða dómsins að maðurinn hafi sýnt af sér „stórfellt gáleysi“ sem leiddi til þess að hann ók á drenginn með þeim afleiðingum að hann lést. Tekið er fram vegna varna ökumannsins að engu geti breytt að varúðarmerkingum eða öðrum merkingum á svæðinu hafi hugsanlega verið ábótavant.

Út frá dómaframkvæmd þykir hæfileg refsing mannsins vera tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi auk þess sem hann er sviptur ökurétti í sex mánuði. Höfðu foreldrarnir farið fram á að maðurinn greiddi þeim 10 milljónir hvoru í miskabætur, en dómurinn taldi hæfilega upphæð vera 4 milljónir til hvors þeirra, auk rúmlega tveggja milljóna í málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert