Fjöldi tilkynninga borist vegna veikinda

Að minnsta kosti 140 hafa tilkynnt um veikindi.
Að minnsta kosti 140 hafa tilkynnt um veikindi. Samsett mynd/Eggert/

Embætti sóttvarnalæknis hefur fengið í það minnsta 140 tilkynningar vegna veikinda eftir þorrablót sem voru haldin á föstudag og laugardag á Suðurlandi.

Tala veikra er talin vera talsvert hærri en Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir segir í samtali við mbl.is að vitað sé um einhverja maka og aðra sem hafi ekki tilkynnt um veikindi.

Sóttvarnalæknir rannsakar veikindin í samráðshópi með Matvælastofnun og Heilbrigðiseftirliti Suðurlands. Óskað var eftir að þeir sem urðu veikir á þorrablótunum myndu skila sýnum og hafa einhverjir orðið við þeirri ósk.

Guðrún segir að það muni taka nokkra daga að fá heildarmynd hvers eðlis veikindin eru. 

Smitin eru rakin til tveggja þorrablóta sem voru haldin á föstudags- og laugardagskvöld. Annars vegar til þorrablóts ungmennafélagsins Hvatar í Grímsnes- og Grafningshreppi og hins vegar til þorrablóts í Þorlákshöfn. 

Ekki endilega matborin sýking

Ekki hefur verið staðfest að veikindin megi rekja til veitinganna sem boðið var upp á á blótunum en Veisluþjónusta Suðurlands sá um veitingar á báðum stöðum. 

„Svo er þetta ekkert endilega í matnum og þó að það sé í matnum þarf það ekki að finnast þar. Þetta getur líka verið komið frá fólki, sérstaklega þegar þetta eru svona snögg veikindi, það eru mjög margir sem eru að fá einkenni innan eins dags. En af því að þetta er á tveim stöðum þá er viss grunur að þetta sé tengt einhverjum sem er að framreiða matinn,“ segir Guðrún. 

Hún segir að embættið hafi ekki fengið neinar tilkynningar um nein alvarleg veikindi en segir þó að að minnsta kosti tveir hafi leitað til bráðamóttöku Landspítalans vegna veikinda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert