Nýtt frumvarp um Hvammsvirkjun var afgreitt úr ríkisstjórn nú í morgun á ríkisstjórnarfundi. Þetta staðfesti Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra, í samtali við mbl.is beint eftir fundinn.
Jóhann hafði boðað frumvarp sem myndi greiða fyrir framkvæmdum við Hvammsvirkjun eftir dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um ógildingu virkjunarleyfis Landsvirkjunar í síðasta mánuði.
Eftir dóminn boðaði Jóhann einnig frekari lagabreytingar til að einfalda leyfisveitingakerfi vegna vatnsaflsvirkjana og gera það skilvirkara.
Í gær var þingmálalisti ríkisstjórnarinnar kynntur og kom þar meðal annars fram að eitt þeirra frumvarpa sem væri fyrst á dagskrá ætti að eyða óvissu um Hvammsvirkjun og aðrar mikilvægar framkvæmdir.
Meðal annars á að koma á orkuforgangi fyrir almenning ásamt umfangsmiklu einföldunarfrumvarpi til að hraða og samræma málsmeðferð í leyfisveitingum, án þess að slá af kröfum um umhverfisvernd og almannasamráð, eins og það var orðað í þingmálaskránni.
Þá verði lögð fram rammaáætlun þar sem virkjunarkostir verða flokkaðir í verndarflokk eða nýtingarflokk samkvæmt tillögum verkefnastjórnar rammaáætlunar.