Gísli Rafn Ólafsson, fyrrverandi þingmaður Pírata, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi.
Í tilkynningu frá Rauða krossinum segir að Gísli Rafn gangi til liðs við Rauða krossinn með tæplega þriggja áratuga reynslu af þróunar- og hjálparstörfum á innlendum og erlendum vettvangi. Hann búi yfir yfir mikilli reynslu af stjórnunarstörfum, stafrænum umbreytingum og stefnumótun bæði innan alþjóðasamtaka og opinberra aðila.
Gísli var þingmaður Pírata á síðasta kjörtímabili og sat í utanríkismálanefnd og þróunarsamvinnunefnd fyrir hönd flokksins. Hann er með meistarapróf í þróunarfræðum frá Háskóla Íslands.
„Rauði krossinn á Íslandi gegnir lykilhlutverki í að styðja við þá sem þurfa mest á aðstoð að halda, bæði innanlands og utan. Ég hlakka til að vinna með þeim öfluga hópi starfsmanna og sjálfboðaliða sem starfa hjá Rauða krossinum við að efla starfsemi félagsins og tryggja að við verðum áfram til staðar fyrir þá sem þurfa á okkur að halda,“ er haft eftir Gísla Rafni.
„Með ráðningu Gísla Rafns hefur Rauði krossinn fengið reynslumikinn og framsækinn leiðtoga sem mun vinna að því að styrkja og efla starfsemi félagsins, bæði innanlands og á alþjóðavettvangi,“ segir Silja Bára Ómarsdóttir formaður Rauða krossins á Íslandi.