Illviðri spáð á morgun: Appelsínugular viðvaranir um allt land

Veðurstofa Íslands hefur gefið út appelsínugular viðvaranir fyrir allt landið …
Veðurstofa Íslands hefur gefið út appelsínugular viðvaranir fyrir allt landið eftir hádegi á morgun. Kort/Veðurstofa Íslands

Miklu illviðri er spáð á landinu á morgun og hefur Veðurstofa Íslands gefið út appelsínugular viðvaranir fyrir allt landið.

Fyrstu appelsínugulu viðvaranirnar taka gildi klukkan 14 á morgun á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa og Breiðafirði og síðar í öðrum landshlutum og gilda þær fram á nótt.

Ansi djúp og kröftug lægð

„Það er ansi djúp og kröftug lægð á leiðinni og hún vex mjög hratt í fyrramálið þegar hún nálgast landið. Hún kemur inn af fullum þunga upp úr hádegi á morgun, fyrst suðvestan til og fer svo yfir landið,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Hann segir að með lægðinni fylgi suðvestan stormur eða rok. Meðalvindhraði geti náð 30 m/s og í hviðum geti hann farið í 40-45 m/s og jafnvel meira, sérstaklega fyrir norðan og austan.

„Þessari lægð fylgja skammvinn hlýindi og talsvert mikil úrkoma. Það verður svakalega mikil leysing og snjóinn mun taka upp þegar þetta veður gengur yfir,“ segir Óli.

Óli segir að næsta bylgja komi strax í kjölfarið á fimmtudagsmorgun og það verði ekki fyrr en um hádegi á fimmtudaginn sem veður verður líkara og er í dag. Þá verði suðvestanátt með éljum.

Á pari við lægðina í mars 2015

Hann segir að lægðin verði um 950 millibör vestur af landinu síðdegis á morgun og þar sem hæðin þrýsti á móti verði vindurinn mjög öflugur.

„Þetta er mjög varasöm lægð og brýnt fyrir fólk að hafa varann á. Mér sýnist að þessi lægð gæti alveg orðið á pari við lægðina sem gekk yfir landið 14. mars 2015. Hún er enn í fersku minni hjá mörgum en hún olli töluverði foktjóni og malbik fauk af vegum,“ segir hann.

Hvar verður versta veðrið á morgun?

„Ég myndi halda að um tíma verði verulega ógirnilegt veður á norðanverðu Snæfellsnesi. Bæði verður gríðarlega mikil úrkoma og mikill vindur. Undir Eyjafjöllum verður gríðarleg úrkoma og á öllu Suðausturlandi verður óhemjumikil úrkoma ásamt hvassviðri. Þá verður veður mjög slæmt á Tröllaskaganum þar sem vindhviðurnar verða mestar og á sunnanverðum Austfjörðum má reikna með mikilli úrkomu og ansi hvössum vindi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert