Magnið af tóbaki sem tveir karlmenn voru dæmdir fyrir að smygla til landsins á árunum 2015 til 2018 var rúmlega 2% af heildarmagni tóbaks sem flutt var til landsins ef miðað er við opinberar innflutningstölur og það magn sem þeir voru dæmdir fyrir að smygla.
Snorri Guðmundsson, oft kenndur við rafrettuverslunina Póló, og Sverrir Þór Gunnarsson, sem kenndur hefur verið við rafrettuverslunina Drekann smygluðu rúmlega 24 tonnum af tóbaki til landsins á fjögurra ára tímabili frá 2015 til 2018.
Með athæfi sínu komust þeir hjá því að greiða opinber gjöld sem áttu að nema tæplega 741 milljón króna. Voru þeir dæmdir í Héraðsdómi Reykjaness í gær til að greiða 1,1 milljarð króna í sekt hvor um sig og til upptöku eigna, samtals um um 200 milljónum króna í reiðufé auk ýmissa fasteigna.
Í það heila var um að ræða 120.075 karton af sígarettum og 5.400 karton af reyktóbaki í níu sendingum eða rúmlega 24 tonn af tóbaki.
Á árunum 2015 til 2018 var heildarinnflutningur á unnum tóbaksvörum samkvæmt tölum frá Hagstofunni alls rúmlega 1.120 tonn. Ólöglegur innflutningur Snorra og Sverris nam því rúmlega 2% af heildar löglegum innflutningi tóbaks á tímabilinu.
Mest fluttu þeir inn á árinu 2016 eða rúmlega 12 tonn af tóbaki. Það ár voru alls flutt inn til landsins löglega rúm 297 tonn, svo ólöglegur innflutningur Snorra og Sverris nam rúmum 4% af heildar löglegum innflutningi þess árs.
Félag Snorra og Sverris, Áfengi og tóbak ehf., var stofnað í nóvember 2011 og hét þá Tóbaksfélag Íslands ehf. Tilgangur þess var meðal annars innflutningur á tóbaki og áfengi.
Heildar löglegur innflutningur á unnum tóbaksvörum á árinu 2012 nam rúmum 345 tonnum, 2013 rúmum 324 tonnum og 2014 um 310 tonnum.