Innflutningur Sverris og Snorra 2% af heildinni

Snorri Guðmunds­son, oft kennd­ur við rafrettu­versl­un­ina Póló, og Sverr­ir Þór …
Snorri Guðmunds­son, oft kennd­ur við rafrettu­versl­un­ina Póló, og Sverr­ir Þór Gunn­ars­son, sem kennd­ur hef­ur verið við rafrettu­versl­un­ina Drek­ann voru dæmdir í Héraðsdómi Reykjaness í gær til að greiða 1,1 millj­arð króna í sekt hvor um sig og til upptöku eigna, samtals um um 200 millj­ón­um króna í reiðufé auk ýmissa fast­eigna. Samsett mynd/mbl.is/Karítas/Árni Sæberg

Magnið af tóbaki sem tveir karlmenn voru dæmdir fyrir að smygla til landsins á árunum 2015 til 2018 var rúmlega 2% af heildarmagni tóbaks sem flutt var til landsins ef miðað er við opinberar innflutningstölur og það magn sem þeir voru dæmdir fyrir að smygla.

Snorri Guðmunds­son, oft kennd­ur við rafrettu­versl­un­ina Póló, og Sverr­ir Þór Gunn­ars­son, sem kennd­ur hef­ur verið við rafrettu­versl­un­ina Drek­ann smygluðu rúmlega 24 tonnum af tóbaki til landsins á fjögurra ára tímabili frá 2015 til 2018.

Með athæfi sínu komust þeir hjá því að greiða opinber gjöld sem áttu að nema tæplega 741 milljón króna. Voru þeir dæmdir í Héraðsdómi Reykjaness í gær til að greiða 1,1 millj­arð króna í sekt hvor um sig og til upptöku eigna, samtals um um 200 millj­ón­um króna í reiðufé auk ýmissa fast­eigna.

Í það heila var um að ræða 120.075 kart­on af síga­rett­um og 5.400 kart­on af reyktób­aki í níu send­ing­um eða rúmlega 24 tonn af tóbaki.

Meira en tólf tonn á einu ári

Á árunum 2015 til 2018 var heildarinnflutningur á unnum tóbaksvörum samkvæmt tölum frá Hagstofunni alls rúmlega 1.120 tonn. Ólöglegur innflutningur Snorra og Sverris nam því rúmlega 2% af heildar löglegum innflutningi tóbaks á tímabilinu.

Mest fluttu þeir inn á árinu 2016 eða rúmlega 12 tonn af tóbaki. Það ár voru alls flutt inn til landsins löglega rúm 297 tonn, svo ólöglegur innflutningur Snorra og Sverris nam rúmum 4% af heildar löglegum innflutningi þess árs.

Félag Snorra og Sverris, Áfengi  og  tóbak  ehf., var stofnað í nóvember 2011 og hét þá Tóbaksfélag Íslands ehf. Tilgangur þess var meðal annars innflutningur á tóbaki og áfengi.

Heildar löglegur innflutningur á unnum tóbaksvörum á árinu 2012 nam rúmum 345 tonnum, 2013 rúmum 324 tonnum og 2014 um 310 tonnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert