Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, segist enga aðkomu hafa haft af því að reyna að liðka til svo lausn fengist í kjaradeilu kennara, ríkis og sveitarfélaga um helgina.
Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, sagði í samtali við mbl.is í morgun að kennarar hefðu mætt á fund ríkissáttasemjara um helgina með þær fréttir að þeir vissu að hægt væri að ganga enn lengra varðandi launahækkanir en fram kom í innanhústillögu sem Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari lagði fram í kjaradeilunni á fimmtudag.
Hún sagðist hins vegar ekki vita hvaðan kennarar hefðu fengið þær upplýsingar.
Miðað við svör Ásthildar komu upplýsingarnar ekki frá henni. Eina aðkoma hennar hafi verið í gegnum ríkisstjórnina sem lagði fram aðgerðarpakka til kennaraforystunnar.
„Ég hef enga aðkomu að samningunum. Ég er fagráðherra og við reyndum að leggja fram faglegan pakka fyrir kennara til að hraða þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin ætlar í. Það er eina aðkoma mín að þessari deilu,“ segir Ásthildur.
Hún er vonsvikin yfir því að deiluaðilar hafi ekki náð saman um helgina.
„Þessi ríkisstjórn ætlar sér að fara í stórsókn í menntamálum fyrir börn og fyrir samfélagið allt. Það verður ekki gert án kennara, sem eru svona sannarlega í framlínu farsældar. Þannig ríkisstjórnin er mjög meðvituð um mikilvægi kennara en líka um mikilvægi verkfallsréttarins,“ segir Ásthildur og heldur áfram:
„Þetta mun koma mjög illa við fjölda barna og fjölskyldna um allt land. Þannig það er ekkert annað í boði en að samningsaðilar setjist við borðið og semji sem fyrst. Það er ekkert víst að það verði auðvelt en ég held að báðir aðilar verði að skoða sinn hlut og leysa þetta mál.“
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir ríkisstjórnina aðallega hafa beitt sér í kjaradeilunni með því að leggja áherslu virðismat á störfum kennara. Mikilvægt sé að það sé klárað
„Ég held að það hafi mögulega verið óljóst hjá fyrri ríkisstjórn, að minnsta kosti var ákveðin tortryggni í garð þess að virðismatið yrði klárað. Þess vegna höfum við fyrst og fremst beitt okkur með þeim hætti.“
Þá hafi ríkisstjórnin líka haft þá óbeinu aðkomu að vera tilbúin að ráðast ákveðnar aðgerðir ef langtímasamningar nást.
„Slíkt fælist í almennri aðkomu að stöðu kennara inni í skólastofunni. Að flýta ákveðnum aðgerðum í menntamálum og þess háttar,“ segir Kristrún.
„Ríkisstjórnin hefur fyrst og fremst beitt sér með þeim hætti að þegar við hittum kennaraforystuna þá lögðum við til ákveðna aðgerðarpakka sem voru með almennum hætti, annað hvort í gegnum farsældina eða gegnum annars konar úrræði, sem er beint að nemendum og þá til stuðnings við kennara, stoðþjónusta og þess háttar.“
Hún bendir á að ríkið hafi ekki aðkomu að samningum við leik- og grunnskóla en geti þó beitt sér þegar kemur að námsmati og námsgögnum.
Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari lagði fram innanhústillögu í kjaradeilunni á fimmtudag, en slík tillaga jafngildir kjarasamningi sé hún samþykkt.
Bæði ríki og sveitarfélög samþykktu tillöguna strax á föstudag en það gerðu kennarar ekki. Þeir mættu til fundar í Karphúsið á laugardag og kröfðust breytinga á ákveðnum skilmálum sem komu fram í innanhústillögunni.
Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, sagði hins vegar við mbl.is í morgun að engin tillaga hefði komið frá kennurum. Þeir hefðu ekki getað komið sér saman um hvað þyrfti til svo hægt hefði verið að loka samningi.
Þá sagði Heiða kennara hafa hafnað rúmlega 20 prósent launahækkun sem stóð til boða á samningstímanum.
Verkföll kennara hófust á ný gærmorgun þegar kennarar í fjórtán leikskólum og sjö grunnskólum lögðuð niður störf. Ná aðgerðirnar til um 5.000 barna og fjölskyldna þeirra. Þá stendur yfir atkvæðagreiðsla hjá Félagi framhaldsskólakennara um ótímabundin verkföll í nokkrum framhaldsskólum.