Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingar og Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingar samþykktu að tillaga Sjálfstæðismanna um atvinnuuppbyggingu á flugvellinum í Vatnsmýri færi til umfjöllunar hjá umhverfis- og skipulagsráði.
Samfylkingin hefur árum saman verið sá flokkur sem talað hefur hvað lengst um að flugvöllurinn í Vatnsmýri víki og Píratar hafa verið því sammála.
„Ég styð þá tillögu að vísa henni til umhverfis- og skipulagsráðs,“ sagði Hjálmar í pontu.
Hann vék máli sínu að öðrum uppbyggingarsvæðum í borginni og sagði að ekki þurfi endilega að breyta aðalskipulagi þó að uppbygging í Vatnsmýri verði ekki eins og til stóð fyrir nokkrum árum. Áform eru uppi um að byggja 7500 íbúðir fyrir árið 2040 á flugvallarreitnum og að flugvöllurinn víki árið 2032.
Ekki mátti þó lesa það út úr máli Hjálmars að um eiginlega stefnubreytingu væri að ræða hjá Samfylkingunni í borginni. Fyrir kosningar sagði hins vegar Logi Einarsson, fyrrum formaður flokksins og oddviti hans á Akureyri, að það væri afstaða hans að flugvöllurinn verði á sínum stað í Vatnsmýri.