Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari beinir þeim tilmælum til deiluaðila í kjaradeilu kennara, ríkis og sveitarfélaga að láta af hnútukasti í fjölmiðlum og einbeita sér frekar að því að efla samningsvilja sinn í málinu.
Hann segir hvorki skynsamlegt né leyfilegt að vísa í umræður eða greina frá því sem fer fram á sáttafundum, líkt og fólk hafi verið að gera í fjölmiðlum síðustu daga. Hann hafi gengið á milli deiluaðila með hugmyndir um helgina í þeim tilgangi að reyna að miðla málum.
„Það er afar mikilvægt að menn hafi það í huga að það er afskaplega gagnslaust að vitna til eða vísa í slík samskipti á opinberum vettvangi. Þar að auki þá er það, samkvæmt lögum, beinlínis bannað að skýra frá eða leiða vitni um umræður á sáttafundum eða tillögur sem kunna að hafa verið bornar fram, nema með samþykki beggja aðila,“ segir Ástráður í samtali við mbl.is.
Ástráður segir staðreynd málsins vera þá að deiluaðilar hafi skipst á skoðunum um hvernig væri hægt að ganga frá samningi. Hvort um tilboð hafi verið að ræða, lætur hann ósagt.
„Í meginatriðum gekk það þannig fyrir sig að sáttasemjari bar á milli herbergja hvað kæmi til greina og hvað kæmi ekki til greina og menn geta valið að kalla það tilboð, alveg eins og þeim sýnist, það er aukaatriði í málinu. Heldur hitt þá var verið að reyna að miðla málum og finna lausn.“
Ástráður lagði fram innanhústillögu í deilunni á fimmtudag, sem bæði ríki og sveitarfélög samþykktu strax á föstudag. Kennarar samþykktu ekki tillöguna í þeirri mynd sem hún var lögð fram og vildu gera breytingar á ákveðnum skilmálum.
Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, sagði í samtali við mbl.is í morgun að kennarar hefðu mætt á fund ríkissáttasemjara um helgina með þær fréttir að þeir vissu að hægt væri að ganga enn lengra varðandi launahækkanir en fram kom í innanhústillögunni.
Þeir hefðu hins vegar ekki lagt fram gagntilboð sem hægt hafi verið að taka afstöðu til. Þá sagði hún kennara hafa hafnað 20 prósent beinum launahækkunum.
Magnsús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, sagði í samtali við Vísi.is í morgun að það hefði ekki verið þannig að kennurum hefði verið boðin 20 prósent innspýting í tilboðið.
Þá sagði hann í samtali við mbl.is í gær að „einhver pólitískur hráskinnaleikur“ hefði farið í gang á laugardag og sunnudag sem endaði með því að kennarar hafi séð að það fylgdi ekki hugur máli þeim setningum sem að forsætisráðherra og formaður sambandsins höfðu komið fram með. Því hafi ekki verið hægt að komast lengra með samtalið.