Birta Hannesdóttir
Eldingum gæti slegið niður á suðvesturhluta landsins á næstu klukkutímum vegna kuldaskila sem nálgast landið úr vestri.
Þetta segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur í samtali við mbl.is.
Hann útskýrir að þeirri kröppu lægð sem gengur nú yfir landið fylgi kuldaskil sem koma úr vestri. Þá skapist mjög skarpar andstæður, bæði í kulda og hita, og myndast oft lína í kjölfarið sem er svokallaður eldingaveggur og færist með lægðinni.
Einar segir að vitað hafi verið að eldingaveður gæti fylgt þeirri lægð sem gengur nú yfir landið. Hann segir þó að oft standi það ekki yfir í langan tíma og gerir hann sér vonir um að eldingaveðrið verði að mestu yfirstaðið þegar skilin fara yfir landið.
„Þetta er í skilunum sjálfum, sem eru nánast bara eins og veggur, og það fer ekkert fram hjá okkur ef það eru eldingar með í þessu,“ segir hann.