Kostnaður við trjáfellingu í Öskjuhlíð getur numið hundruðum milljóna króna. Þetta kemur fram í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Morgunblaðsins.
Bjarki Jónsson, framkvæmdastjóri Skógarafurða ehf. á Ytri-Víðivöllum 2 í Fljótsdal, furðar sig á því verði sem áætlað er við fellingu trjánna og segist ekki skilja hvers vegna Isavia og Reykjavíkurborg ráðfæri sig ekki við atvinnumenn í skógarhöggi. Sem kunnugt er hefur Samgöngustofa farið fram á lokun brautar á Reykjavíkurflugvelli, verði um 1.400 tré í Öskjuhlíð ekki felld.
Bjarki segir að svona mikil grisjun þurfi að fara fram með vélum.
„Það er ekki hægt að haga sér svona. Hvorki borgin né Isavia hafa haft samband til þess að leita upplýsinga um verð eða óska eftir tilboði. Það er ekki hægt að bera þetta saman við garðfellingar í Reykjavík þar sem ekki er hægt að koma skógarhöggsvélum fyrir. Þessi verðhugmynd er svo fjarri öllum veruleika sem til er í heiminum og sýnir enn eitt ruglið í Reykjavík og að menn eru ekki tengdir við veruleikann þarna lengur.“
Spurður hvernig eigi að vinna verkið segir Bjarki að það þurfi mann til að fara á undan vélinni til að saga af neðstu greinarnar, þannig að vélin komist að trénu.
„Mér sýnist að miðað við 1.400 tré geti þetta verið um það bil 2 hektarar. Þetta getur tekið einhverja daga eða kannski tvær vikur leikandi létt.“
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag