„Galið að stimpla málið á svartan húmor“

Sindri Snær Birgisson í Landsrétti í gærmorgun.
Sindri Snær Birgisson í Landsrétti í gærmorgun. mbl.is/Karítas

„Við sem samfélag verðum að setja mörk,“ sagði Anna Barbara Andradóttir saksóknari í málflutningi sínum í hryðjuverkamálinu í Landsrétti. Hún sagði það ekki vera gott fordæmi ef hægt væri að undirbúa hryðjuverk en segja það síðan vera djók án nokkurra afleiðinga.

Ákæruvaldið fer fram á að Sindri Snær Birgisson verði sakfelldur fyrir tilraun til hryðjuverka og að Ísidór Nathansson verði sakfelldur fyrir hlutdeild í broti Sindra.

Þá er farið fram á refsiþyngingu fyrir vopnalagabrot tvímenninganna. Sindri var dæmdur í 24 mánaða fangelsi og Ísidór í 18 mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir tæplega ári síðan.

Anna Barbara minntist á að verjendur ákærðu færu fram á frávísun ákæru um tilraun til hryðjuverka. Ákæruvaldið hafnar þeirri kröfu og vísaði saksóknarinn í dóm héraðsdóms þar sem sagði að Sindri hefði haft „einhvers konar illvirki“ í huga.

Anna Barbara Andradóttir saksóknari hjá Ríkissaksóknara í Landsrétti í gærmorgun.
Anna Barbara Andradóttir saksóknari hjá Ríkissaksóknara í Landsrétti í gærmorgun. mbl.is/Karítas

Ásetningurinn

Ásetningur tvímenninganna var ein af helstu ástæðum þess að þeir voru sýknaðir í héraði, og fjallaði Anna Barbara því mikið um það.

Í áfrýjaða dóminum sagði að for­senda þess að unnt væri að sak­fella ákærðu fyr­ir til­raun til hryðju­verka væri að þeir hefðu „ótví­rætt sýnt þann ásetn­ing í verki, sem miðar eða er ætlað að miða að fram­kvæmd brots­ins“.

Í þeim efn­um gæti tvennt komið til, ann­ars veg­ar fram­kvæmda­at­hafn­ir og hins veg­ar und­ir­bún­ings­at­hafn­ir.

Ljóst er að Sindri og Ísi­dór fram­kvæmdu ekki hryðju­verk og eft­ir stæði því hvort ákæru­valdið hafi sannað að menn­irn­ir hefðu „ótví­rætt“ verið að und­ir­búa hryðju­verk. Héraðsdómur taldi það ekki hafa verið sannað.

Fordæmalaust mál

Anna Barbara kom inn á að ekki hefur áður verið dæmt fyrir brot á 100. gr. a. almennra hegningarlaga, þ.e.a.s. hryðjuverk.

Það sem gerir málið enn sérstakara er að ákært er fyrir tilraunarbrot. Vanalega fjalla dómstólar um brot sem eru komin á framkvæmdarstig, en það eigi ekki við í þessu tilfelli heldur er um undirbúningsstig að ræða.

Anna Barbara sagði skilin milli undirbúnings og framkvæmdar skipta litlu máli þar sem ljóst sé að undirbúningur geti leitt til refsiábyrgðar. Þá sagði hún að orðið ótvírætt ætti ekki að takmarka refsiábyrgð á undirbúningsathöfnum.

Dönsku lögin rýmri

Saksóknarinn kom inn á að dönsk lög eru fordæmi íslensku laganna og sagði öll stig ásetnings koma til greina í þeim dönsku.

Í dómi héraðsdóms seg­ir að sá mun­ur sé á orðalagi ís­lensku og dönsku lag­anna að þau síðari inni­halda ekki orðið „ótví­rætt“.

„Get­ur þetta gefið til kynna aðeins væg­ari sönn­un­ar­kröf­ur til und­ir­bún­ings­at­hafna að dönsk­um rétti í sam­hengi við mat á ásetn­ingi,“ seg­ir í áfrýjaða dóm­in­um.

Lifum í ákveðinni búbblu

Anna Barbara sagði Íslendinga lifa í ákveðinni búbblu hvað varðar sögu um voðaverk, en að þetta beri að taka alvarlega líkt og dæmin í nágrannalöndum okkar sýna.

Hún sagði það vera „galið að stimpla málið á svartan húmor einstaklinga“.

Saksóknarinn sagði tvímenningana hafa sýnt ótvírætt í verki ásetning sinn með undirbúningsathöfnum sem eru í 64 liðum í ákærum. Hún sagði lögfulla sönnun vera til staðar um ásetning þeirra.

Undirbúningurinn snerist að því að hafa aflað sér skotvopna, skotfæra og íhluta í skotvopn, átt í samskiptum um hryðjuverk, tileinkað sér efni þekktra hryðjuverkamanna, orðið sér úti um efni og upplýsingar um sprengju- og drónagerð, kynnt sér efni tengt mögulegum árásarþolum og reynt að verða sér úti um lögreglufatnað.

Anna Barbara fór yfir þessar undirbúningsathafnir og sagði mikilvægt að horfa á heildarmyndina. Nokkrum sinnum hristu Sindri og Ísidór höfuðið yfir málflutningi saksóknarans.

Ísidór Nathansson er ákærður fyrir hlutdeild í broti Sindra.
Ísidór Nathansson er ákærður fyrir hlutdeild í broti Sindra. mbl.is/Karítas

Augljós vegferð

Anna Barbara sagði að samskipti tvímenninganna hafi ekki einungis átt sér stað á einni kvöldstund. Um væri að ræða margra mánaða samtal á milli fullorðinna karlmanna sem byggju ekki við greindarskort eða andlega fötlun. Annar væri yfirlýstur kynþáttahatari og hinn hefði lýst andúð sinni á samkynhneigðum.

Þeir hefðu orðið sér úti um skotvopn, talað um áætlanir sínar, lýst aðdáun sinni á þekktum hryðjuverkamönnum, gert innkaupalista, ætlað að verða sér úti um lögreglufatnað og höfðu haft getu og kunnáttu til að þrívíddarprenta sprengjudróna.

Hún sagði augljóst á hvaða vegferð slíkir einstaklingar eru.

Eina leið lögreglu til að stíga inn í

Anna Barbara sagði að þó að í gögnum málsins lægi ekki fyrir hvar og hvenær Sindri og Ísidór ætluðu að láta til skarar skríða þá hittust þeir mikið á þessum tíma og töluðu saman í síma.

Hún nefndi að undirbúningur gæti tekið marga mánuði eða ár en að framkvæmdin sjálf gæti tekið sekúndur. Engin leið væri fyrir lögreglu að stíga inn í nema á undirbúningstímanum.

Saksóknarinn sagði hárfína línu vera þar á milli.

Tók hún sem dæmi skilaboð sem Sindri sendi á Ísidór þar sem hann sagðist hafa verið með AR-15 riffil í Hafnarfirði en að hann gæti ekki gert mikið með þremur kúlum.

„Hvað hefði lögregla getað gert mikið?“ spurði Anna Barbara. Þá spurði hún hvort það hefði breytt málsatvikum ef Sindri hefði verið með sprengju eða dróna.

Sindri neitaði í gær að hafa nokkurn tímann verið með skotvopn í Hafnarfirði.

Hvatti, hrósaði og sendi efni

Anna Barbara sagði Ísidór vera „úti um allt“ í málinu. Hann hefði hvatt, hrósað og sent Sindra efni og komið að framleiðslu skotvopna.

Þá nefndi hún að hann hefði eytt talsvert af efni áður en hann var handtekinn sem lögregla náði að endurheimta að hluta. Meðal annars fannst drög að manifestói.

Ísidór sagði fyrr í dag að hann hefði eytt efni af því hann óttaðist að vera handtekinn af því að hann vissi „hvernig þetta liti út“.

Saksóknarinn sagði Ísidór hafa áhuga á þjóðernishyggju, skotvopnum og manndrápum. Því væri ljóst á hvaða vegferð hann var á.

Enginn bilbugur

Anna Barbara sagði félagana vissulega hafa talað um annað á því tímabili sem um ræðir, en verjendur hafa gagnrýnt að samskiptin hafi verið klippt og tekin úr samhengi.

„Hvenær hættir grín að vera grín?“ spurði saksóknarinn og sagði mennina vera fulla af hatri og fordómum og tala um að drepa fólk. Hún sagði það ekki standast neina sönnun að samskipti þeirra hafi verið grín.

Þá minntist Anna Barbara á að öfgasamtök hefðu haft samband við Ísidór. Hann sagði sjálfur frá því í skýrslutöku í morgun en sagðist aldrei hafa tekið þátt í neinu slíku.

Hún sagði engan bilbug hafa verið á mönnunum og að lögregla hafi komið í veg fyrir voðaverk með því að handtaka þá.

Sagði Sindra hrokafullan

Anna Barbara sagði margt í framburði þeirra sem kæmi ekki heim og saman við sönnunargögn málsins.

Hún lýsti Sindra sem hrokafullum, hefði gert lítið úr vinnubrögðum lögreglu og verið með útúrsnúninga.

Saksóknarinn sagði skýringar um að fróðleiksfýsn til dægrastyttingar ekki standast skoðun.

Refsiþyngd lögð í mat dómsins

Að lokum vitnaði Anna Barbara í danska dóma þar sem sakborningar hefðu verið komnir skemmra á veg í undirbúningi sínum.

Hún sagði þá dóma geta verið til leiðbeiningar eða leiðsagnar.

Saksóknarinn lagði það í mat dómsins að ákvarða refsiþyngd. Hún nefndi að erlendis hefði fólk verið dæmt í allt að 15 ára fangelsi og sagði þó að ákæruvaldið telji það mjög harða refsingu.

Aðalmeðferð málsins í Landsrétti lýkur á morgun með málflutningi verjanda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert