Geymsluskúr sem sprakk, brotnar rúður, ferðahýsi til vandræða og rúta sem hafnaði utan vegar eru á meðal þeirra þrjú hundruð verkefna sem björgunarsveitir slysafélagsins Landsbjargar hafa sinnt í dag.
Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landabjargar, segir í samtali við mbl.is að á fjórða tug björgunarsveita hafi verið kallaðar út í dag vegna veðurs. Útköll hafa borist úr öllum landshlutum nema lítið hefur verið um útköll á norðanverðum Vestfjörðum og á Austfjörðum.
Hann segir að verkefnin séu fyrst og fremst fokverkefni þar sem ýmist hafa orðið skemmdir á mannvirkjum. Meðal annars hafi geymsluskúr á Suðurnesjum sprungið í miklum vindhviðum með þeim afleiðingum að munir fuku um allt. Ferðahýsi hafi einnig verið til vandræða.
Jón segir að björgunarsveitir á Snæfellsnesi hafi verið kallaðar út vegna rútu sem hafnaði utan vegar rétt hjá Búðum á Snæfellsnesi. Hann hafði ekki upplýsingar um hvort einhver hafi slasast. Í kringum tuttugu farþegar voru um borð.
Þá segir Jón að eitthvað hafi verið um að byggingarefni hafi fokið frá byggingarsvæðum auk þess sem klæðningar hafi losnað og rúður brotnað í sterkum vindhviðum.
Greint var frá því fyrr í dag að björgunarsveitir á Suðurlandi hafi verið kallaðar út vegna rútu sem hafnaði utan vegar á Hellisheiði. Þar voru einnig 20 manns um borð og varð engum meint af.
Rauðar veðurviðvaranir hafa verið í gildi á nær öllu landinu í dag. Í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands segir að veðrið sé byrjað að ganga niður vestast á landinu en að enn sé að hvessa fyrir austan.
Á höfuðborgarsvæðinu mældust vindhviður 30-35 m/s þegar veðrið náði hámarki kl 18 í kvöld. Ekki hefur mælst hærri vindhraði á Veðurstofureitnum síðan 7. febrúar 2022.
Á Fróðárheiði á Snæfellsnesi mældust vindhviður um 58 m/s á Fróðárheiði á Snæfellsnesi um kl 17 í dag. Tvisvar hafa vindhviður mælst hærri á Fróarheiði á þessari öld og það var í mars 2015 og í febrúar 2008.