Þingfesting í stærsta kristal metamfetamínmáli Íslandssögunnar fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Allir sex sakborninga neita sök í málinu sem snýr að innflutningi á rúmlega 5,7 kílóum af metamfetamíni.
Meðal sakborninga er Sigurður Ragnar Kristinsson, sem áður hefur verið sakfelldur,fyrir stórfelld fíkniefna- og skattalagabrot. Hann neitaði sök fyrir dómi í fjarfundarbúnaði frá Litla Hrauni.
Hið sama gerðu fjórir aðrir sakbornningar í málinu en einn mun hugsanlega undirgangast geðmat og var þeim lið málsins frestað. Fimm sakborninga eru frá Íslandi en einn frá Albaníu en hann er jafnframt yngstur sakborninga í málinu. Fjórir sitja í gæsluvarðhaldi. Elstur sakborninga er fæddur árið 1969 en sá yngsti árið 1994. Ein kona er ákærð í málinu og er hún fædd árið 1989.
Fíkniefnin voru flutt til landsins sjóleiðis í bíl sem var sagður ætlaður í kvikmyndaverkefni.
Fíkniefnin fundust við tollskoðun og voru sett gerviefni í bílinn. Í framhaldinu fygdist lögregla með sakborningum í málinu áður en fjórir voru handteknir í fyrstu. Sex voru handteknir í heild vegna málsins.
Í tilkynningu sem lögregla sendi frá sér í kjölfarið kemur fram að framkvæmdar hafi verið nokkrar húsleitir við rannsókn málsins.
Uppi varð fótur og fit þegar einn sakborninga í málinu óskaði eftir því að fá gögnin á hljóðformi sökum þess að hann gæti ekki með nokkru móti lesið málsskjöl vegna lögblindu. Dómari vildi ekki bóka þetta í málskjölin og óskaði eftir því að lögmaður myndi lesa skjölin fyrir skjólstæðing sinn. Benti lögmaðurinn á það að hver klukkustund væri býsna dýr þar sem skjólstæðingur þarf á liðsinni lögmanns að halda. Upphófst þá mikil umræða um það hvernig best væri að koma gögnunum til skila til hins illsjáandi manns. Málið er í vinnslu.