Logi Einarsson menningarráðherra tekur því fjarri að fyrirætlanir um að lækka þak á styrkjum til einkarekinna fjölmiðla megi rekja til pólitískrar óvildar í garð einstakra miðla. Fyrir honum vaki aðeins að nýta fjármagnið betur til að halda lífi í fjölmiðlun.
Ráðherra var spurður eftir ríkisstjórnarfund í gær hvort ekkert væri bogið við að kynna breytingar á styrkjunum örfáum dögum eftir að Sigurjón Þórðarson, þingmaður Flokks fólksins, hafði opinberlega í hótunum um að skerða framlög til óþægra fjölmiðla.
„Fjölmiðlar hafa kallað eftir fjölbreytni og blómlegra fjölmiðlalífi …“
Hvaða fjölmiðlar hafa gert það?
„Ég held að flestir fjölmiðlar hafi gert það.
Ég ákvað – af því að samningarnir voru að renna út um áramótin – að halda þessu í svipuðu formi næsta árið, en ráðast í miklu stærri endurskoðun á haustþinginu, þar sem Ríkisútvarpið og fleiri verða inni.
Það er algerlega tilhæfulaust að þetta hafi eitthvað að gera með einstaka þingmenn eða orð þeirra í fjölmiðlum. Þetta eru áform sem ég kynnti mjög fljótlega eftir að ríkisstjórnin tók við.“
Af hverju?
Ég stend einfaldlega frammi fyrir því núna að a.m.k. þessi ársframlenging verður óbreytt heildarupphæð. Og ég ætla bara að leyfa mér að taka mér tíma til þess að útfæra það þannig að þeir peningar nýtist sem best og að hér verði einhver fjölmiðlun í landinu eftir nokkur ár.“
En með sömu ráðum dó eitt dagblað og óvíst um framtíð sjónvarpsfrétta Sýnar …
„Ef pottur er lokaður – alveg sama hvort það eru háskólar, fjölmiðlar eða aðrir – þá mun breyting hjá einum óhjákvæmilega kalla á breytingar hjá öðrum. Þannig að við vildum bara vera gagnsæ með þetta, að þetta væri það skref sem ég taldi rétt að stíga til að byrja með.
Það hefur ekkert að gera með hvað aðrir ráðherrar eða þingmenn hafa sagt. Bara ekki neitt.“
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag