Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 31,2% fylgi og er því stærsti flokkurinn í höfuðborginni.
Þá tapar meirihluti flokka Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Framsóknar og Pírata fylgi og er staðan sérstaklega slæm hjá Framsókn og Pírötum.
Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar könnunar Gallup um fylgi flokkanna í Reykjavík, sem unnin var fyrir Viðskiptablaðið.
Miðað við könnun Gallup frá því í október hefur fylgi Sjálfstæðisflokksins aukist verulega. Flokkurinn mældist með 21,1% fylgi í október en ný könnun sýnir 31,2%.
Píratar, sem núna hafa þrjá borgarfulltrúa, missa samkvæmt könnuninni tvo. Í könnunum Gallup frá síðasta ári mældist flokkurinn með um 10,4-12,1% fylgi en ný könnun sýnir 4,4%, fylgi fokksins hefur því minnkað töluvert á milli ára.
Framsóknarflokkurinn mældist með svipað fylgi í nýrri könnun og hann gerði í október, sem var um 3,5% en ný könnun sýnir 3,3% fylgi.
Vinstri grænir hafa aukið fylgi sitt frá því í október, þegar flokkurinn mældist með 1,9% fylgi, og eru núna með 4% fylgi í borginni.
Þá hefur fylgi Miðflokksins minnkað samkvæmt könnuninni, sem mælir fylgi þeirra um 6,6%, en tekið er fram að atkvæði flokksins voru fleiri í kosningunum 2024 en þau voru 2022, sem gefur til kynna að flokkurinn bæti við sig fylgi.
Flokkur fólksins mældist í október með 8,6% fylgi og hefur það minnkað niður í 6,5%, en árið 2022 fékk flokkurinn 4,5% atkvæða í kosningum.
Sósíalistaflokkurinn mælist með 10% fylgi í nýrri könnun en kannanir Gallup á síðasta ári sýndu um 6,6-11,3% fylgi hjá flokknum.