Staðbundnir sviptivindar geta farið yfir 50 m/s

Appelsínugular veðurviðvaranir taka gildi eftir hádegi á öllu landinu.
Appelsínugular veðurviðvaranir taka gildi eftir hádegi á öllu landinu. mbl.is/Arnþór

Veður versnar hratt suðvestanlands á milli kl. 13 og 15 og litlu síðar annars staðar á landinu.  

Í tilkynningu frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar segir að til að byrja með verði hríð á fjallvegum og flughálka þegar leysir.

Seinni partinn í dag og í kvöld verða sunnan 20-28 m/s. Staðbundnir sviptivindar geta farið yfir 50 m/s, til dæmis á á norðanverðu Snæfellsnesi, í Hvalfirði og norðan Skarðsheiðar. Eins á Öxnadalsheiði og víða á Austfjörðum.

Á vef Vegagerðarinnar. umferðin.is, kemur fram að vegurinn um Holtavörðuheiði sé lokaður vegna veðurs og flutningabíls sem þverar veg og er ólíklegt að hægt verði að opna í dag. Þá er ófært í Ísafjarðardjúpi en unnið er að mokstri. Ófært er á veginum um Dynjandisheiði og mun hann ekki verða opnaður í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert