Starfsfólk spítalans myndi líka vilja setuverkfall

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. mbl.is/Sigurður Bogi

Á sama tíma og deilt er um stærsta þingflokksherbergið á Alþingi er Landspítalinn á rauðu stigi, deildir og gjörgæsla yfirfullar og um 50 manns bíða innlagnar á bráðamóttökunni. Þar fá fæstir sjúklingar herbergi og eru látnir liggja fram á gangi. 

Þetta skrifar Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, í færslu á Facebook í tilefni þess að þing kom saman á ný í gær. Vitnar hún í deilur á milli Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar sem Morgunblaðið greindi frá í síðasta mánuði.

Samfylkingin óskaði eftir að fá úthlutað stærsta þingflokksherberginu í Alþingishúsinu vegna stærðar sinnar en herbergið hefur verið þingflokksherbergi Sjálfstæðisflokksins í 84. ár. Sagði Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við Vísi að herbergið hefði bæði tilfinningalegt og sögulegt gildi fyrir flokkinn.

„Húsnæði bráðamóttökunnar hefur líka sögulegt gildi þar sem undanfarin ár hefur verið lygilegt að fylgjast með hvað hægt er að fjölga endalaust af sjúklingum á sömu fermetrana og virðist sú saga engan endi taka [...]. En fyrir starfsfólkið hefur húsnæðið án efa tilfinningalegt gildi því það vill sínum sjúklingum einungis hið besta,“ skrifar Guðrún og heldur áfram: 

„Sjálfstæðisflokkurinn var tilbúinn í setuverkfall til að halda þingflokksherberginu en sem betur fer tókst að lenda deilunni áður en til þess kom. Ég veit um starfsfólk sem væri alveg til í að fara í setuverkfall fyrir mun færri fermetra en þingmenn hafa og ekki einu sinni fyrir sig sjálft heldur sína sjúklinga. En vonandi kemur ekki til þess enda ætla ég að alþingismenn séu, eins og starfsfólk Bráðamóttökunnar, mikið dugnaðarfólk sem ætlar nú að standa vaktina og redda þessu (og vinna þó í margfalt betri aðstæðum) og því treystum við öll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert