Tekur leðjuslaginn fyrir kvennaboltann

Hinn geðþekki og brosmildi Brynjar Karl.
Hinn geðþekki og brosmildi Brynjar Karl. Ljósmynd/Aðsend

Brynjar Karl Sigurðsson körfuboltaþjálfari kvennaliðs Aþenu hefur birt myndband á Facebook sem sýnir meðal annað sjónarhorn á það sem fór fram í umdeildu myndbroti sem leiddi til þess að hann var opinberlega sakaður um að beita ungu konurnar sem hann þjálfar ofbeldi.

Myndbandið sýnir jafnframt samanburð við orðræðu og ákefð sem tíðkast í karlaíþróttum.

„I rest my case“ skrifar Brynjar meðal annars við myndbandið.

Spurður hvort honum hafi þótt ómaklega að sér vegið í umræðunni í ljósi þess sem myndbandið sýnir segir Brynjar í samtali við mbl.is:

„Ef þú pælir í því þá eru ómaklegheitin til mín smámunir miðað við hversu ómaklega er vegið að öllum stelpum sem eru að spila boltaíþróttir. Það er málið. Ég er ekki hérna til þess að bjarga andlitinu mínu - mér er drullusama hvað dómstóll götunnar hefur að segja, ég mun aldrei fá tækifæri til að þjálfa “hater”-ana; ég er fyrst og fremst hér til að upphefja kvennaboltann og auka virði þeirra kvenna sem spila og næstu kynslóða.“

Er almennt önnur nálgun í þjálfun og í samfélaginu á kvennaíþróttir kvennaíþróttir, og telur þú að hún hafi áhrif á gæði leikmanna og karakterana sem koma út úr þessu starfi?

„Það eru framin mannréttindabrot á hverjum einasta degi varðandi framkomu og kröfur – tækifæri sem ungar stelpur fá til að auka virði sitt sjálfar í til dæmis boltagreinum þar sem gildin eru ákveðni og agressívni svo ég leyfi mér að sletta. Það er ótrúlegt að vera í þeirri stöðu að þurfa að taka á fólki sem aldrei hefur verið í keppnisíþróttum og hefur alveg svaka fordóma fyrir styrk okkar stúlkna sem taka þátt í þessu, og ætlar að „vernda“ þær í aðstæðum sem þetta fólk skilur ekki og sem þær hafa aldrei beðið um að vera verndaðar í.“

ÍSÍ í fararbroddi bleikrar slykju

„Það er magnað að Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, sem hefur innan sinna vébanda íþróttagreinar sem eru í eðli sínu mjög agresívar – allt frá boltagreinum yfir í bardagagreinar – skuli ætla að vera í fararbroddi fyrir einhverja „bleika slykju“, eins og Magga Pála í Hjallastefnunni kallar það, og gera mál úr því hvernig konur eru þjálfaðar þegar karlar eru þjálfaðir nákvæmlega eins,“ segir Brynjar.

Hann veltir því fyrir sér hvað sé eiginlega að gerast hjá ÍSÍ og í samfélaginu öllu.

„Þetta er eiginlega galið. Ég hyggst á næstu dögum leggja mig allan fram við að taka veika hluta kúltúrsins í óumbeðna „þerapíu“ og gera mitt besta til að fá fólk til að mæta og taka samræður og koma sér upp úr skotgröfum samfélagsmiðlanna, og gera það fyrir samfélagið okkar, til að klára þetta mál í bili,“ segir Brynjar og bætir við:

„Ég hef verið í þjálfun í 35 ár. Ég hef ekki fengið eitt prósent af þeim ávítum, gagnrýni og drullu þegar ég var að þjálfa stráka. Það segir allt sem segja þarf.“

Fá hörkuna þegar við á

„Ef hægt er að saka mig um að vera „geðsjúkur maður“, þá kvitta ég undir það ef það felst í því að nenna að standa í þessum endalausa „leðslagi“ til þess að geta þjálfað stelpurnar mínar af sömu virðingu og strákana. Fólk þarf að skilja að það er virðing í því sem ég er að gera. Ég hef trú á þessum stelpum, og þær hafa margoft sagt mér að þær vilja gera vel og á fá hörkuna þegar við á,“ segir Brynjar.

Hann segir nauðsynlegt að fólk spyrji sig hvort kvenna-boltaíþróttir eigi að vera á öðrum forsendum en karla.

„Erum við að horfa upp á að leikurinn, sem í eðli sínu er ákafur, sé bundinn einhverjum staðalmyndum um að stelpur séu svo viðkvæmar og þoli ekki það sama og strákarnir? Þá er ég ef til vill að misskilja jafnréttisbaráttu síðustu áratuga. Erum við líka að fara á þann stað að líkja samskiptum í kappleik við samskipti sem eiga sér stað í Kringlunni eða við kvöldverðarboð? Nei, hvorki ég né neinn af mínum iðkendum myndum samþykkja það.“

Þá minnir hann á að verið sé að tala um keppnisíþróttir fullorðinna kvenna.

„Nokkrar þeirra eru atvinnumenn í efstu deild – þar sem eru leikreglur, samþykktar af dómurum, áhorfendum og keppendum um að aggressívur leikur sé hafinn. Þetta er önnur vídd sem gefur fólki tækifæri til að testa þetta tilfinningasvið sem við öll eigum. Ef fólk heldur að manneskjan sé ekki aggressív í eðli sínu, þarf það ekki annað en að fara inn á samfélagsmiðlana til að sjá hvað illskan og árásargirnin er algeng. Ég nota íþróttir til að kenna iðkendum mínum að ná tökum á geðshræringum sínum. Það er hlægilegt að sjá „góða fólkið“ berjast gegn agressjón í íþróttum en vera svo sjálft að níða náungann á bakvið tölvuna. Það hefur engan áhuga á að ræða málin þegar því er boðið að mæta á staðinn. Þetta er mjög andlega óheilbrigð hegðun.“

Popúlísk pólitík í forystunni

Þegar þú talar um ÍSÍ – þar eru einstaklingar sem eiga að þekkja íþróttahreyfinguna út og inn. Kannast þau þá ekki við þessa framkomu og hegðun í karlaboltanum?

„Ég bara skil ekki á hvaða vegferð íþróttaforystan er. Ég held að hún sé bara í svipuðu ástandi og margar stofnanir í samfélaginu sem vita ekki lengur fyrir hvað þær standa eða eiga að standa. Þær kikna undir kröfum sem eru gerðar vegna þess að þær vilja gera allt fyrir alla, en fylgja svo bara háværasta fíflinu að máli – þora ekki að takast á við það. Það er mikil stemning hjá fíflunum af því að fólk með almenna skynsemi sér ekki pointið með því að stíga inn, og þannig verður þessi „náttúrulega þróun“. Það er allt of mikið af fólki í forystu sem er í einhverri popúlískri pólitík. Það vantar fólk með bein í nefinu til að taka á þessum málum af heilindum áður en það fer enn meira úr böndunum.“

Hver eru næstu skref í málinu?

„Ég er kallaður til samskiptastjóra, og mér finnst það bara gott tækifæri því ég ætla að snúa við taflinu. Ef það er einhver sem hefur fengið illa meðferð inni í íþróttahreyfingunni, þá er það minn klúbbur Aþena, og það verður áhugavert að sjá hvort íþróttaforystan treysti sér til að vera dómendur í eigin eineltismáli.“

Hvað segja stelpurnar um þetta allt? Hvernig líður þeim?

„Þetta fer fyrir brjóstið á þeim. Ég veit ekki annað en að þær séu að fara að stíga fram, persónulega, hver á fætur annarri. Flestar hafa farið á samfélagsmiðlana og talað beint við okkar hörðustu fjandmenn, og það hefur verið áhugavert að heyra þær tala um viðbrögðin sem þær fá þar. Ég held að þær komi sjálfar fram í mynd og máli og tjái sig á næstunni. Þá getur fólk séð hvað þetta eru hæfar og sjálfstæðar konur. Ég heyri að þær eru ekki sáttar við vanvirðinguna sem þeim er sýnd.“

Líta þær á þetta sem jafnréttismál?

„Þú verður bara að spyrja þær. Það eru tveir mánuðir í að dóttir mín verður 18 ára. Þá verður þetta hennar barátta, og ég styð hana eins og hún óskar. En þetta mun breytast þegar hún er orðin fullorðin einstaklingur. Það verður bara áhugavert að sjá hvað þær gera. Ég er búinn að gera mitt allra besta til að undirbúa þær.“

Hvað er gerist næst hjá ykkur í Aþenu?

„Nú höldum við áfram að skora á háværustu gagnrýnisraddirnar sem hafa hingað til ekki þorað að mæta á æfingu, tala við okkur, taka umræðuna upp upp úr leðju samfélagsmiðlana og inn í miðla þar sem hægt er að ræða málinn og viðra skoðanir. Samstöðin er búin að bjóða sig fram til að vera vettvangur fyrir skoðanaskipti. Og svo síðast en ekki síst að fólk hlusti á stelpurnar og tali við þær og fyrir þær sjálfar að stíga fram og taka á þessu kjaftæði,“ segir Brynjar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert