Landsréttur hefur þyngt dóminn yfir Shokri Keryo, sænskum karlmanni sem héraðsdómur dæmdi í þriggja ára og sex mánaða fangelsi fyrir skotárás í Úlfarsárdal í nóvember árið 2023, um þrjú og hálft ár.
Er honum gert að sitja í fangelsi í sjö ár og mun gæsluvarðhald sem hann hefur þegar setið dragast af fangelsisvist hans.
Var Keryo sakfelldur fyrir hættubrot, en sýknaður fyrir tilraun til manndráps fyrir héraðsdómi í fyrra.
Shokri neitaði sök á skotárásinni fyrir dómi í mars og kvaðst lítið muna frá kvöldinu umrædda þar sem hann var sakaður og dæmdur fyrir að hafa skotið fjórum skotum í áttina að fjórum einstaklingum.
Eitt skotanna fór inn um glugga hjá fjögurra manna fjölskyldu, sem er málinu að öllu óviðkomandi.
Gabríel Douane Boama, sem sjálfur er góðkunningi lögreglunnar fyrir hin ýmsu ofbeldisbrot, særðist í árásinni.