Dúkur körfuboltavallar fauk af

Dúkur körfuboltavallarins við Árskóla á Sauðárkróki fauk af í óveðrinu.
Dúkur körfuboltavallarins við Árskóla á Sauðárkróki fauk af í óveðrinu. Ljósmynd/Árskóli

Sannkallað ofsaveður gekk yfir Norðurland vestra í nótt og tilkynnt var um nokkur foktjón á svæðinu.

Í færslu lögreglunnar á Norðurlandi vestra á Facebook kemur fram að rúða hafi sprungið í íbúðarhúsi í grennd við Húnavelli, þak hafi losnað af útihúsum í Miðhópi, bekkir fokið í grennd við Hofsós og að dúkur körfuboltavallarins við Árskóla á Suðárkróki hafi fokið af. Í öllum tilvikum voru björgunarsveitir ræstar úr.

Fram kemur í færslunni að vindhviða hafi mælst 58,1 m/s á Stafá, utarlega á Tröllaskaga og 47 m/s hviða hafi mælst á flugvellinum á Sauðárkróki. 

Rauð viðvörun tók gildi á Norðurlandi vestra klukkan 10 í morgun og er í gildi til klukkan 15 en í dag verða sunnan 25-30 m/s með hviðum yfir 45 m/s og talsvert mikilli rigningu um tíma. Hætt er við foktjóni og útlit er fyrir vatnavexti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert