Öðrum kastaranum sem lýsir upp krossinn á toppi Hallgrímskirkju sló út þegar eldingu laust niður, að því er virðist í sjálfum kirkjuturninum, í gær.
Einar Daði Andrésson sendi mbl.is nýtt myndskeið frá öðru sjónarhorni, af svölum stúdentagarða við Lindargötu, þar sem sjá má hvernig eldingin virðist lenda á kirkjuturninum.
Grétar Einarsson kirkjuhaldari segir tvo kastara lýsa krossinn upp að utanverðu og að það lifi á ljósinu hinum megin. „Eins og ég segi, ljósið lifir.“
Grétar gerir ráð fyrir að kastarinn sé ónýtur þó hann viti það ekki nákvæmlega því erfitt sé að sjá þangað upp. Segist hann ekki hafa orðið var við aðrar skemmdir.
„Við bíðum aðeins þar til veðrinu slotar til að geta farið í spíruna til að sjá hvort einhverjar fleiri skemmdir hafa orðið sem við sjáum ekki utan frá,“ segir hann.
Rafvirki verður látinn fara yfir allar töflur og annað þvíumlíkt að sögn Grétars, sem segir þó engin rafmagnskerfi hafa slegið út eða brunaviðvörunarkerfi eða annað látið á sér kræla.
Innangengt er upp í turnspíru kirkjunnar fyrir ofan níundu hæð þar sem klukkuportið er, lýsir Grétar, en hann segir ekki hægt að komast að krossinum sjálfum nema að utanverðu.
„Við getum séð hvort það hafi orðið skemmdir efst í spírunni og hvort eitthvað sem er í turninum hafi farið úrskeiðis.“
„Kastararnir eru sitt hvorum megin við krossinn að utanverðu en rafmagnstengingar auðvitað innan í spírunni, sem við eigum eftir að sjá hvort hafi orðið einhverjar skemmdir á en fyrst ekkert sló út og engin kerfi fóru í gang virðist það ekki hafa orðið.“
Óvíst er hvenær hægt er að skipta út kastaranum en Grétar segir að það þurfi aðeins að bíða.