Með ljósastæði úr bílskúr Geirfinns

Útgefandinn Jón Ármann Steinsson með gögnin í rauðri möppu og …
Útgefandinn Jón Ármann Steinsson með gögnin í rauðri möppu og bókina, Leitin að Geirfinni. mbl.is/Árni Sæberg

Jón Ármann Steinsson, útgefandi bókarinnar Leitin að Geirfinni, hefur undir höndum ljósastæði úr bílskúrnum við heimili Geirfinns Einarssonar á Brekkubrautinni í Keflavík.

Samkvæmt vitni sem vísað er til í bókinni beið Geirfinnur þar bana í átökum við mann sem hann þekkti að kvöldi 19. nóvember 1974. Jón telur það vera þess virði að láta rannsaka ljósið til að kanna hvort þar geti leynist lífefni sem geti stutt frásögn vitnisins.

„Í skýrslum, öðrum en þeim sem gerðar voru við upphaf rannsóknarinnar í Keflavík, kemur fram að öskur hafi heyrst fyrir utan heimili Geirfinns þetta kvöld og vitni lýsa sem drápsöskrum. Við erum með vitni sem sá Geirfinn í átökum við annan mann, sem við getum nafngreint, inni í bílskúrnum. Þar var Geirfinnur veginn og samkvæmt vitninu gerðist það beint undir flóðljósi í bílskúrnum. Ljósið var splunkunýtt og Geirfinnur hafði nýlega sett tvö slík ljós í bílskúrinn. Annað þeirra var við glugga og fyrir utan þann glugga var vitnið og sá þar af leiðandi ágætlega inn í skúrinn,“ segir Jón Ármann í samtali við Morgunblaðið en hvernig veit hann að Geirfinnur hafi skömmu fyrir hvarfið sett upp ljós í bílskúrnum og það hafi verið enn í skúrnum þar til nýlega?

„Geirfinnur og eiginkonan höfðu verið að endurnýja húsakynnin samkvæmt upplýsingum sem við erum með. Eftir að þau fluttu inn var tóku þau húsnæðið í gegn og Geirfinnur byrjaði á bílskúrnum. Hann málaði skúrinn að innan og setti síðan upp þessi ljós. Í framhaldinu var unnið í íbúðinni. Geirfinnur hafði málað barnaherbergið að loknum vinnudegi sama dag og hann var drepinn. Þess vegna voru börnin hjá afa og ömmu þetta kvöld, þ.e.a.s út af lyktinni sem málningin gaf frá sér í barnaherberginu. Varðandi ljósin þá hafa fleiri en einn minnst á við okkur að þessi ljós í bílskúrnum hafi verið sérlega björt.“

Fékk leyfi húseigenda

Rannsóknarvinnan sem liggur að baki bókaútgáfunni stóð árum saman en Sigurður B. Sigurðsson er höfundur bókarinnar og systir hans Soffía Sigurðardóttir vann einnig að bókinni. Á einhverjum tímapunkti höfðu Jón Ármann og samstarfsfólk samband við núverandi húsráðanda á Brekkubrautinni. Hann féllst góðfúslega á að sýna þeim bílskúrinn.

Bílskúrinn við Brekkubraut 15 þar sem Geirfinnur Einarsson bjó. Í …
Bílskúrinn við Brekkubraut 15 þar sem Geirfinnur Einarsson bjó. Í bókinni er haft eftir nágrönnum að þaðan hafi borist öskur kvöldið sem hann hvarft. Bæði fyrir utan skúrinn og bárust lætin inn í skúrinn. Ljósmynd/Jón Ármann

„Þegar ég kom og skoðaði bílskúrinn þá hafði verið skipt um klæðningu en næsta verkefni núverandi húseiganda var að skipta út rafmagninu. Ég spurði hvort ég mætti eiga ljósastæðið og það var sjálfsagt mál. Ljósið var skrúfað upp í loftið í skúrnum og líklega hefur enginn snert á því í áratugi. Ég setti ljósið í svartan poka og teipaði fyrir. Ég vil afhenda lögreglunni ljósastæðið ef áhugi skapast fyrir því að leysa málið. Þetta er 50 ára gamalt flóðljós og því hefur ekki verið skipt út. Það er 100% öruggt,“ segir Jón og bendir á að með nútímatækni sé sá möguleiki fyrir hendi að blóðdropar eða úði gæti greinst á ljósbúnaðinum.

Viðtalið við Jón Ármann í heild sinni er að finna í Morgunblaðinu sem kom út í morgun. Þar kemur einnig fram að þeir sem stóðu að bókinni séu nú tilbúnir að efhenda Dómsmálaráðherra gögn með viðbótar upplýsingum og vísbendingum ef áhugi sé fyrir hendi. Vísbendingar sem eigi heima hjá lögreglu sem geti rannsakað málið í krafti rannsóknarheimilda. Að sögn Jóns hafa þeir verið í samskiptum við embættismenn í ráðuneytinu að undanförnu og fengið góð viðbrögð. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert